Wednesday, November 14, 2012

Loksins komin greining!

Þessi vika fer líklega í sögubækur sjálfrar mín af þeim sökum að loksins fékk ég greiningu á því hvað hefur verið að hrjá mig undanfarin mörg ár. Í þessari færslu mun ég fara frekar ítarlega yfir það hvað amar að mér svo ég bara bið ykkur sem hafið ekki áhuga á svoleiðis skrifum að sleppa því að lesa áfram...  :)

Í gær fékk ég semsagt staðfestingu á því að lyfin sem ég hef tekið sl 2 ár vegna fjölblöðrueggjastokkaheilkennis (PCOS) hafa virkað mjög vel á mig og ég má nú minnka skammtinn af þeim lyfjum, rétt til að fá nægilegt magn til að halda einkennu í skefjum. Þau einkenni eru í mínu tilviki blöðrur á eggjastokkum, hækkað magn testósteróns og kortisóls og fleira. Allt þetta lítur mjög vel út og það er ekkert nema gleðilegt. 

Í dag fékk ég svo að vita niðurstöðurnar úr blóðprufunum sem gigtarlæknirinn sendi mig í fyrir 6 vikum. Ekkert óeðlilegt við kjarnamótefnin og ekki er þetta Sjögren's eða lupus!

Niðurstaðan: vefjagigt - Fibromyalgia syndrome
(http://en.wikipedia.org/wiki/Fibromyalgia)

Eftir að hafa lesið ansi margt um vefjagigt er ég að upplifa afskaplega blendnar tilfinningar núna. Þær jákvæðu eru þær að loksins er komin skýring á því af hverju ég get stundum ekki hreyft mig fram úr rúminu sökum verkja, af hverju mér finnst ég stundum alltof orkulaus, af hverju ég hef þjáðst af einbeitingarskorti, þreytu og ómögulegheitum, af hverju ég upplifi svefntruflanir næstum á hverri nóttu, af hverju ég hef verið með verki í bakinu, hnjánum, öxlunum, mjöðmunum og í bringu frá 12/13 ára aldri...ég get haldið endalaust áfram. Það að fá loksins að heyra eitthvað annað en "hættu þessum aumingjaskap og farðu út að hlaupa" gefur mér alveg svakalega góða tilfinningu. Að fá læknisfræðilega skýringu á því að ég sé í rauninni ekki aumingi heldur bara búin að vera að díla við nokkur af mismunandi einkennum vefjagigtar (sem eru mismunandi eftir fólki), fyllir mig gleði og von um að framhaldið verði betra þar sem nú geti ég fengið almennnilega meðferð.

Neikvæða hliðin á þessu öllu saman er hinsvegar sú að vefjagigt er eitthvað sem fylgir manni það sem eftir er og maður verður bara að lifa með henni. Það að ég þurfi að vera pilluáta það sem eftir er til að mér líði bærilega þykir mér óþægileg tilhugsun en þetta er bara enn ein áskorun á mig, ég hef gengið í gegnum þær allmargar svo ég hlýt að geta þetta.

Ef einhver hefur áhuga á að lesa meira um vefjagigt þá er til frábær síða: vefjagigt.is sem útskýrir mjög vel allt sem fólk vill vita um sjúkdóminn. Hér er til dæmis smá útskýring á sjúkdómnum og hér er listi yfir helstu einkenni hans.

Næstu 7 vikur á ég að prófa að taka verkjastillandi og bólgueyðandi lyf sem heitir Naproxen  e Mylan 1-2x á dag, 10-20 mg af amitriptylin um kvöldmatarleytið (sem er geðdeyfðarlyf sem læknar ávísa í litlum skömmtum til að dýpka svefn og draga úr stoðkerfiseinkennum) og svo á ég að halda áfram með 1/2-1 töflu af Phenergan fyrir svefninn til að auðvelda svefninn. 
Þetta hljómar ansi svakalega en ég er tilbúin að prófa þetta í 7 vikur og sjá hvort ég finni einhvern mun á mér. Ef verkirnir frá bakinu hafa ekkert batnað ætlar læknirinn að senda mig í myndatöku í janúar.

Ég á að halda áfram að mæta í sund og yoga, fara í gönguferðir og borða hollt. Hvítur sykur og hvítt hveiti er mjög slæmt fyrir fólk með vefjagigt og ætla ég því að reyna að útiloka það sem mest úr matarræðinu. Ég er líka búin að lesa fleiri matarráðleggingar á vefjagigt.is sem ég ætla að reyna að fara eftir eftir bestu getu.

Mig langaði að deila þessu með ykkur sem lesið síðuna svo að þið hafið smá hugmynd um hvað er í gangi með mig. Ég býst nú ekki við að þetta breyti neinu en maður getur aldrei verið 100% að lyf hafi engar aukaverkanir. Ég hef samt fulla trú á að þetta sé allt saman bara til batnaðar. Þetta mun hvetja mig til að halda áfram leið minni til betra lífs og það gerir mann ekkert að aumingja þó maður þurfi smá hjálp til þess. 

Öll ráð og ábendingar varðandi vefjagigt eru vel þegin.

Bestu kveðjur í bili!



Tuesday, October 9, 2012

Fyrsta heimsóknin til gigtarlæknis


Jæja... þá hef ég loksins skellt mér til gigtarlæknis. Ég hef oft fengið ábendingar um að ég ætti kannski að kíkja og sjá hvað þeir segja, aðallega vegna þess að ég hef verið með verki í baki frá fermingaraldri og slæm í  öllum liðum og fleiru í mörg, mörg ár. Ég hitti Magnús Guðmundsson í Læknasetrinu í Mjódd. Hann spurði mig spjörunum úr, hlustaði mig og ýmislegt fleira. Hann ákvað síðan að senda mig í blóðprufu, bæði almenna og gigtarpróf vegna gruns um vefjagigt. Hann gaf mér líka litlar bláar töflur sem ég á að taka fyrir svefninn í 6 vikur og þá fer ég að hitta hann aftur. Þá tekur hann stöðuna á ný og skoðar niðurstöðurnar úr blóðprufunum. Ef honum líst svo á þá hugsaði hann að hann myndi senda mig í röntgen myndatöku af hryggnum vegna gruns um brjósklos. Hann sagðist ekki skilja hvers vegna ég hefði ekki komið fyrr og sagði mér að fólk biði oft allt, allt of lengi með að fá læknisaðstoð. Það væri mjög slæmt því fólk væri stundum að leita sér hjálpar þegar það er eiginlega orðið of seint. Ég vona að ef það er eitthvað í gangi hjá mér að það sé þá hægt að grípa inn í... ég er nú einu sinni bara 27 ára :)

Hann Magnús bað mig líka um að vera ekki að hamast neitt í tækjasal eða hlaupa eða neitt þannig, en hann bað mig að synda 2-3 sinnum í viku, fara oft í heita potta og/eða gufu, helst að fara í nudd líka og þegar ég minntist á HotYoga þá fannst honum það kjörin hugmynd. Svona rólegt á ég að hafa það í 6 vikur eða fram í miðjan nóvember.

Ég er búin að vera dugleg að sleppa kvöldnaslinu, og ef ég nasla þá er það bara á ávöxtum eða rúsínum og möndlum. Ég reyni að vera dugleg að elda mér hollan kvöldmat, geri það eins oft og ég get.

Til að slútta þessum pósti langar mig að bera fagnaðarerindi:
Ég hef misst 4 kíló síðastliðinn mánuð! Ég er ekki búin að mæla mig með málbandi hinsvegar, ég geri það í kvöld eða á morgun :)

Tuesday, September 18, 2012

Vá hvað ég saknaði Hot Yoga!

Margir hugsa um Hot Yoga og sjá fyrir sér kófsveitt fólk í stríði við fáránlegar stellingar og í andnauð vegna  óbærilegs hita, og málið er að það er nákvæmlega það sem Hot Yoga er... Allavega fyrstu 2-4 tímana!

Svona leið mér í febrúar 2011 þegar ég fór í minn fyrsta Hot Yoga tíma. Ég svitnaði svo mikið að vökvinn hefði geta fyllt heilt baðkar, mig svimaði og ég átti erfitt með að vera inni í herberginu, EN kennarinn var búin að gefa þær tilskipanir að þau sem væru að koma í fyrsta skipti þyrftu bara að einbeita sér að því að vera inni í salnum allan tímann og venjast hitanum. Fyrsti tíminn gekk ekkert svakalega vel hvað æfingarnar varðar. Ég fann að ég hafði mjög takmarkað jafnvægi og ég var allt of þung og átti erfitt með margar hreyfingar sem öðrum þarna inni þótti sjálfsagðar. Ég lét það samt ekki á mig fá og mætti aftur daginn eftir. Sá tími var strax betri og ég fann að ég átti mikið auðveldara með að höndla hitann og svitann.

Ég fór að stunda Hot Yoga 4-5x í viku allt fram í nóvember 2011. Þá var ég búin að missa 25 kíló; átta frá október 2010 til febrúar 2011 en 17 kíló missti ég svo með Hot Yoga frá febrúar til október 2011. Þegar kortið mitt rann út í nóvember fannst mér ég vera farin að standa í stað og ákvað að finna mér aðra tegund hreyfingar, ég fór að synda í smá tíma en svo bara endaði með að ég gerði ekki neitt! Í febrúar sl ákvað ég svo að taka á honum stóra mínum og skrá mig í Crossfit. Það var æðislegt! Ég elska Crossfit - mér finnst það alveg ótrúlega gaman, mér leið vel og gekk svakalega vel að koma mér í betra form sem var mjög mælanlegt á árangrinum sem ég náði og eitthvað af vinum og vandamönnum las um hér á þessari síðu. Líf mitt í Crossfit var nú samt ekki lengra en fram í lok apríl en þá tók við mjög mikil vinnutörn útaf BA ritgerðinni og svo leiddi eitt af öðru eins og ég skrifaði um hér í byrjun september.
Ég bætti á mig 6 kílóum í sumar og er núna ofsalega glöð og hamingjusöm yfir að hafa tekið þá ákvörðun að byrja aftur í Hot Yoga, og tek það núna í bland við aðra tíma til að fá smá fjölbreytni í hreyfinguna.

Það sem hefur samt komið mér sem mest á óvart allan þennan tíma meðan ég hef verið að léttast - þyngjast lítillega - léttast aftur - þyngjast um 6 kíló og byrja svo aftur núna að hreyfa mig er það að vigtin segir ofsalega lítið. Auðvitað er freistandi að líta á töluna á vigtinni sem einhvern mælikvarða á árangur en ég er alveg búin að læra það að aðalmælikvarðinn er vellíðan - það að líða vel í eigin skinni er besta gjöf sem hægt er að veita sjálfum sér! Mælingar með málbandi eru síðan miklu áhrifaríkari en margt annað því meðan ég var í Crossfit til dæmis þá hrundi sentimetrafjöldinn meðan vigtin stóð oft í stað heillengi. Ég er því ofsalega sammála grein sem ég las eftir Röggu nagla í gær.

Núna er ég byrjuð aftur í Hot Yoga og vá hvað mér líður strax betur. Gaman að segja frá því að ummálið yfir magann hefur minnkað um 4 sentimetra síðan 5. september og ég hlakka bara til að skoða tölurnar þegar ég er búin að vera að í mánuð :)

Þó að ég hafi ekki stundað HotYoga í næstum heilt ár, þá er alveg magnað hvað líkaminn er snöggur að komast í sitt gamla form, ég finn alveg um leið hvað ég er komin á sama stað í liðleikanum og ég var sl nóvember. Það er bara eins og ég sé að halda áfram þaðan sem frá var horfið. Nema núna eru fyrstu tímarnir ekki kófsveitt fólk í stríði við fáránlegar stellingar í andnauð vegna óbærilegs hita, nei, þetta er fólk eins og ég og þú sem langar bara að líða vel og rækta bæði líkama og sál.

Aðalmálið í Hot Yoga er öndunin og þess vegna fannst mér svo gaman að rekast á þessa grein um Hot Yoga í dag sem er um megingildi þeirra sem stunda Hot Yoga, mæli með henni! :)

Wednesday, September 12, 2012

Sigur!

Ég get ekki annað en glaðst yfir atviki sem átti sér stað í hádeginu í dag.

Ég átti ekki til neitt djúsí í hádegismat heima (því ég þarf að fara í búð) nema gulrætur sem ég kláraði í morgun svo ég ákvað að skella mér á Subway í hádeginu. Ég keypti mér heilsubát hjá þeim sem mér finnst mjög góður en algjörlega án þess að hugsa keypti ég mér gosglas með og labbaði út, voðalega sátt og hamingjusöm.
Þegar ég var að verða búin með matinn hérna í vinnunni þá teygði ég mig í kókglasið og fékk mér vænan sopa... Ekki gekk það betur en svo að mér svelgdist á, ég fékk hóstakast og gat varla kyngt sopanum. Málið er að ég hef ekki látið kók inn fyrir mínar varir í heila viku og viti menn: Ég hafði enga lyst á þessu!

Það er kannski ágætt að bæta því við að ég hellti restinni af kókinu og fékk mér vatn!


Vika búin í Hreyfingu

Nú er ég búin að mæta í ræktina í viku. Fyndið hvað ég finn mikinn mun á bakinu mínu strax. Restin af útlimunum fylgir vonandi eftir fljótlega :) Reyndar var ég svo sárþjáð af harðsperrum sl. helgi að ég átti erfitt með gang og daglegar athafnir, en núna er þetta komið í lag og ég finn bara að ég er léttari á sál og líkama og hressari fyrir vikið :)

Ég er líka búin að vera ofsalega dugleg (finnst mér) að borða betur. Núna hef ég í eina viku tekið með mér nesti í vinnuna, ávexti, grænmeti, salöt, kjúklingabita, smoothies og þess háttar og mikið er það nú gott að grípa bara í epli eða vínber þegar manni langar í súkkulaði. Magnað hvað manni líður mikið betur! Ég undirbý nestið bara um morguninn eða kvöldið áður og það er mun minna mál en ég var búin að ímynda mér. Ég hef alltaf sagt að það sé svo mikið vesen að undirbúa hollt og gott nesti en nei, það er bara einhver mýta!

Dagskrá vikunnar 10.-16. september:
Mánudagur: Frí því mér bauðst að vera í sjónvarpssal eftir vinnu
Þriðjudagur: 30 mín SR-tími og 60 mín Hot Yoga
Miðvikudagur: 60 mín Eftirbruni og 60 mín Hot Yoga
Fimmtudagur: 75 mín Hot Vinyasa Yoga
Föstudagur:  60 mín Zumba og 60 mín Hot Yoga
Laugardagur: Frí
Sunnudagur: 60 mín Hot Yoga (með fyrirvara um að ég hugsanlega sofi lengur og fari frekar út að skokka seinna um daginn)

Ég mun halda uppi fyrri hætti og koma mánaðarlega með nýjustu tölur af vigtinni og sentímetrum, bara svona fyrir mig aðallega því mér þykir það hvetjandi að sjá muninn á mér svart á hvítu :)

Ef einhver þarna úti er að lesa þetta og hugleiða að koma sér af stað, JUST DO IT! :)

Standandi stöður í Bikram Hot Yoga

Wednesday, September 5, 2012

Breyttir tímar

Jæja... Þetta sumarfrí frá bloggsíðunni hefur verið aðeins (miklu) lengra en áætlað var.
Í apríl sl. fór ég á fullt að klára BA ritgerðina mína og síðustu vorprófin, byrjaði svo í nýrri vinnu á Landspítalanum í Fossvogi og tók mér svo frí frá CrossFittinu. Sumarið leið ofboðslega hratt, ég eignaðist kærasta í júní og er í orðsins fyllstu búin að hafa það ofsalega gott. Sundferðir, gönguferðir, bæjarhátíðir, Oslóarferð hafa sett mark sitt á sumarið mitt og ég kvarta ekki yfir neinu, nema einu: Mér tókst að bæta á mig örfáum sambandskílóum í sumar!

Nú segi ég stopp og ætla að gera eitthvað í málunum. (Til að fyrirbyggja allan misskilning samt þá er ég ennþá ástfangin upp fyrir haus af honum Grétari mínum - þarf bara að drattast til að hreyfa mig aftur) ;)

Nú er svo komið að skrokkurinn minn er í tómu tjóni, ég man ekki hvenær ég átti síðast verkjalausan dag. Bakið og hnén eru í ruglinu, ég sef lítið og oftast illa og ég ákvað að það besta sem ég gæti gert væri að byrja aftur í Hot Yoga. Ég er líka búin að panta mér tíma hjá gigtarlækni, eitthvað sem ég ætlaði að vera búin að gera fyrir mörgum árum. Í gegnum vinnuna mína fæ ég rosalega flottan díl á líkamsræktarkorti sem ég get notað að vild í Hreyfingu, Sporthúsinu og Hress fyrir 3900 kr á mánuði og í gær skráði ég mig á kort!
Ég ætla að fara að mæta 4-5x í viku í Hot Yoga í Hreyfingu og svo reyna að kíkja 1-2x í viku í Zumba.

Vonandi næ ég að laga verkina aðeins, það allavega tókst síðast þegar ég æfði Hot Yoga að kappi í tæpt ár. Þá batnaði bakið helling og liðirnir skánuðu til muna, ég missti að auki fjöldann allan af kílóum sem ég væri alveg til í að upplifa aftur. Sælgætisát mun nú bara vera á laugardögum og skyndibitafóður verður nú sett í frí.

Ég vona að þið sem lesið þetta raus fyrirgefið mér þetta langa hlé og það að CrossFittið sé farið í pásu, maður verður að hlusta á líkamann þegar hann kvartar svona sáran eins og ég sé orðin áttræð.

FYRSTA ÆFING Í KVÖLD OG EKKERT MÚÐUR!

Ég sá þessa mynd í morgun sem ég verð bara að setja hér inn að lokum.

Þangað til næst!
Þóranna


Tuesday, April 24, 2012

Heimaæfing

Í dag er ég búin að vera með höfuðverk aaaaaaaallan liðlangan daginn svo það þarf víst ekki að útskýra að ég ákvað að fara ekki á æfingu. Tek ekki sénsinn á að lenda í sömu hremmingum og í gær!

Í staðinn ákvað ég að taka fram dýnuna mína góðu, skella henni á stofugólfið og gera styrktaræfingar meðan ég horfði á einn þátt af Biggest Loser. Ég gerði allskonar magaæfingar, bakæfingar, rassæfingar, hnébeygjur og armbeygjur, teygði á og tók bakið vel. Ég er alveg á því að það sé mun skárra að gera eitthvað smá heldur en að sleppa æfingu alveg. Sama þó maður sé með hausverk, bakverk eða illt í puttanum eða whatever... Það er alltaf hægt að gera eitthvað! :)


Sólstingur er langt frá því að vera cool stuff! (Pun intended)


Ég get sko sagt ykkur það að ég fékk sólsting á laugardaginn. Ég fór í sund, þriðja sólardaginn á 4 dögum, var líklega aðeins of lengi í pottinum með sólina í smettið þar sem ég var orðin hundlasin um leið og ég kom heim. Svimi, ógleði, heit húð, höfuðverkur, þorsti og allur pakkinn. Á sunnudag vaknaði ég eftir 12 tíma svefn og nokkurra klukkutíma "mók" og var enn með smá höfuðverk en hann lagaðist svo þegar leið á daginn.
Í dag hélt ég því að sjálfsögðu áfram með lífið og mætti á CrossFit æfingu niðri í Kötlu eins og síðasta færsla greindi frá.



Nú hef ég hinsvegar komist að því að sólstingur á laugardegi þýðir nokkurra daga ömurlegheit.
Ein svakalega kúl sem mætti í fyrsta skipti niðrí Kötlu eftir tæplega 3ja vikna lærdómhlé, tók mobility og vel hressa upphitun sem var 3 umferðir af 10x 6 metra sprettum, 10x bekkjahopp (fram og til baka) og 10x uppsetur.

Ég var góð í smá stund eftir þetta en allt í einu var eins og ég hefði verið slegin í andlitið, rothöggi, þar sem ég var bara í mestu makindum að hlusta á Jakó útskýra WODið... þá fór yours truly að labba í reiðuleysi fram og til baka og svo man ég að ég sagði Jakobínu að ég væri að spá í að sleppa WODinu í dag, mér liði ekkert allt of vel, og svo man ég ekkert fyrr en ég var komin út í ferskt loft og krakkarnir voru byrjuð í WODinu sem hófst á útihlaupi. Þá fór ég bara inn og kvaddi, fékk að heyra að ég væri náföl og liti alls ekki vel út. Fór og skvetti vatni í andlitið og á hnakkann, fór svo fram í teygjusvæði og þegar ég var búin að sitja þar í smá stund og tala við félaga minn þá var ég orðin ágæt. Ég var samt með hellur fyrir eyrunum og rosalega furðulega vanlíðan.

Ég treysti mér svo loks í sturtu og að henni lokinni þá var ég orðin nokkuð góð. Fór yfir í Sportlíf og keypti mér að borða þar sem ég fattaði að þetta var líklega ekki einungis sólstingurinn, heldur einnig sú staðreynd að ég hef verið með litla sem enga matarlyst síðan á þriðjudaginn síðastliðinn. Keypti mér kjúklingasalatbakka, keyrði til Eyrúnar og borðaði eins og ég hefði ekki borðað í mörg ár.

Við skelltum okkur svo stöllurnar bara á Titanic í bíó þar sem ég lagaðist af þessari furðulegu vanlíðan. Held að poppið hafi hjálpað smá líka, saltið þar eitthvað að binda vökva í líkamanum.

Ég held ég geti tengt þetta allt saman... Næringarskortur, sólstingur, aukið vökvatap vegna lyfjanna sem ég er á "sem eru í flokki þvagræsilyfja vegna blóðþrýstingsins míns). Allt þetta var bara einum of mikið álag í dag. Ég vona að matarlystin sé komin á rétt skrið aftur og aukaverkanir sólstingsins séu á afturhaldi. Ég athuga stöðuna á mér á morgun og fer ekki svona geyst af stað. Lofa!



Hinsvegar var ég búin að lofa að útskýra Hug-a-Twinkee, sem margir gætu haldið að væri sú athöfn þegar maður knúsar súkkulaðistykki, en nei, ekki er það svo gott, þetta er rass- og mjóbaksæfing sem fer fram eins og í þessu myndbandi.

Farið vel með ykkur - ég ætla að gera það. Vonast til að vera orðin góð á morgun!

Monday, April 23, 2012

Nýir tímar

Hún móðir mín var svo yndisleg að gefa mér pening í sumargjöf til að kaupa kort í ræktina/CrossFit. Upp hófust miklar vangaveltur (aftur) um hvaða stöð ég vildi skella mér í og svo fattaði ég í gær að ég hafði ekkert hugleitt Reebok CrossFit Katla, í Holtagörðum. Ég var búin að ákveða að fara aftur í CFR en þar er því miður bara svolítið dýrt að vera svo þetta var ekkert erfitt val.

Í Holtagörðum er mánuðurinn aðeins á 5.990 og með því fylgir aðgangur að Reebok Fitness stöðinni sem ég prófaði fyrir jól meðan það var frítt.
Ég er því búin að kaupa mér kort í CrossFit Katla! :)



Ég er mjög spennt að byrja, og ætla á æfingu strax í dag því WODið hljómar svo ótrúlega skemmtilega!
-----------------------------
800 m hlaup/róður

10 umferðir:
10x Knees2Elbows
10x Hug-a-Twinkee

800 m hlaup/róður
-----------------------------

Þetta er bara of gott til að sleppa því, mikið hlakka ég til!

Heyrumst síðar og verið dugleg að hreyfa ykkur! :)





Tuesday, April 17, 2012

Vúhú - tímabæting!

Jæja, loksins treysti ég hnénu og mallakút til að synda af einhverri alvöru og tók því tímatökuna í 1 kílómeters sundpsrett í sól og yndislegu veðri í dag. Þegar ég synti þetta síðast á tíma var kalt og mig minnir að það hafi verið snjór og alles! Það var 13. febrúar og ég var 23;13 með kílómeterinn.

Í dag er 17. apríl, yndisleg sól og frábært veður þó hitamælirinn sýni einungis 6°, en í lauginni er notalegt og eftir sundið gat ég meira að segja lagst á sólbekk og tanað (og það var sko barist um bekkina!)

Sundafrek dagsins í dag verður að teljast gleðiefni númer tvö þar sem mér var boðin vinna í morgun á Landspítalanum sem ég ætla að þiggja :) Ég hlakka ofsalega til að klára þessa BA ritgerð og fara í rútínu, vinna, æfa, borða, sofa eða eitthvað svoleiðis...

En að máli málanna, 1 kílómeters bringusund 17. apríl 2012: 19;24 !
Grííííínlaust! Þá er bætingin á 2 mánuðum 4 mínútur og 11 sekúndur :D

Mikið er ég ótrúlega hamingjusöm og ánægð með þetta litla afrek :)



Ný könnun komin inn, endilega takið þátt :)

Ég verð í lokin að bæta því við að ég er ofsalega ánægð að sjá niðurstöður síðustu könnunar þar sem ég spurði hvað lesendum þótti um CrossFit, svörin stóðu ekki á sér og voru eftirfarandi:

Ég æfi CrossFit og finnst það frábært
  4 (20%)
Ég æfi Crossfit en ætla að hætta því
  0 (0%)
Ég hef prufað CrossFit en var ekki að fíla það
  1 (5%)
Mig langar að prófa CrossFit
  10 (50%)
Mig langar ekki að prófa CrossFit
  5 (25%)

Auðvitað er CrossFit ekki fyrir alla og er það ósköp eðlilegt, ég hef heyrt vini segja við mig að þeim langaði að prófa CrossFit en líkaminn þeirra bara byði ekki upp á það, til dæmis sökum gigtar og þess háttar.
En ég er ofsalega glöð að sjá að 10 manns langar að prófa CrossFit og mig grunar að 2 af þeim séu núna nýbyrjuð á Grunnnámskeiði sem er bara eins brilliant og það gerist :D
Restin: prófið bara :)

Tuesday, April 3, 2012

Tveggja mánaða uppgjör

Jæja... þá er mánuði tvö í CrossFit lokið og því tími til að hugleiða hvort ég ætla að halda áfram í CFR eða hvort ég flyt mig í World Class til að hafa aðgang að Hot Yoga og sundlaugum í bland við CrossFit... ætla að velta þessu fyrir mér yfir páskafríið aðeins.

Síðasta vikan í mánuði tvö gekk nú ekki neitt sérstaklega vel þar sem kviðvöðva-batinn fór aðeins til baka... Var að rembast við að gera upphífingar í teygju og bara á þeirri fyrstu fékk ég aftur svona sting eins og ég fékk þegar ég ref kviðvöðvafestinguna... Ekki jafn slæmt sem betur fer, en þetta hefur líklega eitthvað aðeins trosnað upp aftur svo ég ákvað að hvíla bara vel, tók svo aktíva hvíld með því að ég skrapp í sund og svona. Reyndi samt ekki við tímatökuna, ég geri það vonandi í páskafríinu. Þetta er allt að koma!

Ég ætla samt að skella hérna inn árangrinum eins og hann stendur núna eftir 2 mánuði í CrossFit þó síðasta vika hafi ekki gert neitt fyrir mig...

Árangur frá 6. febrúar 2012:



Tuesday, March 27, 2012

Örvæntið ekki

Engar áhyggjur, ég er hvergi hætt blogginu. Ég er bara búin að vera að massa BA-ritgerðina og svo skrapp ég upp í sumarbústað. Svaf lítið sem ekkert þar og er því bara búin að vera að hvíla mig og skrifa meira. Ég ætla að taka tímatökuna í sundi í dag og svo mun ég fara á CrossFit æfingu á morgun. Þetta er síðasta vikan sem ég er búin að greiða fyrir og þarf nú að gera upp hug minn hvað ég ætla að gera að henni lokinni.

Vona að allt gangi vel hjá ykkur og allir séu hressir á vordögum :)

Monday, March 19, 2012

CrossFit-vika 7 er hafin!

Ahhhhh hvað mér líður vel eftir þessa mánudagsæfingu! Ég er ýkt ánægð með mig líka því mér tókst að ná pínuponsulitlum milestones í dag :D

WOD1 var: 5 umferðir- 9 tær í stöng, 6 HP Snatch (60/40 kg), 30 Double Unders.
WOD2 var: 5 umferðir - 9 hnélyftur á stöng (eða tær í stöng), 6 HP Snatch (35/25 kg), 90 Double Unders.

Ég gerði WOD2 auðvitað því ég get ekki ennþá double unders og 40 kg er ALLT of þung fyrir mig í snöruninni.... ég reyndi 25 kg en sá fram á að á 4. umferð væri ég orðin of uppgefin til að geta 6 stykki svo ég tók 20 kg.
Ég er loksins búin að ná því hvernig maður snarar! Búin að læra að tengja hreyfingarnar í eina, nú þarf ég bara að æfa þetta og ná þessu 100% en ég er allavega að gera rétt núna. Milestone númer 1!

Tær í stöng er eitthvað sem ég reyndi í síðustu viku eða þarsíðustu og gat ekkert nema bara hangið og lyft hnjánum upp í 90° og niður aftur. Núna, hvorki búin að æfa þetta né upphífingar, gat ég gert þessa blessuðu axlahreyfingu sem er svo krúsjal að ná rétt (og ég er búin að vera að rembast við síðan í fyrstu viku) og gat því kippt löppunum miklu hærra. Milestone númer 2! Næst held ég að ég muni ná tánum í stöngina! :D

Lokatími: 10,35 mín. Súper, fáránlega sveitt en sæl og hress að þessari æfingu lokinni :D

Ég held ég hafi sett þessa mynd hingað inn áður,
en mér finnst hún bara svo góð!

Mig langar að lokum að beina athygli ykkar að þessari frétt á Mbl.is... Íslenskar konur í 5 af efstu 10 sætunum í Evrópuriðli undankeppni CrossFit leikanna 2012 :D

Thursday, March 15, 2012

CrossFit Games - Open Workout 12.4

Vá hvað þeir sem sjá um CrossFitleikana eru bjartsýnir! WOD dagsins er fjórði liður af fimm í undankeppni CrossFit-leikanna. Hvorki meira né minna en AMRAP á 12 mínútum: 150 Wall Balls, 90 Double Unders og 30 Muscle Ups. Íslandsmeistarinn í Crossfit skildist mér að hafi átt 5 muscle ups eftir í fyrstu umferð!!! Þetta er bara rugl! Bíð spennt eftir að sjá hvað Annie Mist gerir!

Hér getið þið glöggvað ykkur á hvernig æfingin er fyrir pro-CrossFittara.

Það undrar vonandi engan þegar ég segi að ég tók WOD2 í dag, sem var alveg nógu andskoti mikið púl! AMRAP á 12 mín: 100 wall-balls (10 lbs, 2,7 m), 180 single unders sipp og 30 armbeygjur.

Gleður mig svo mikið að tilkynna að ég gat nákvæmlega eina umferð! Wohoo!

Ég var búin að vera heillengi að berjast við armbeygjurnar, orðin svo þreytt í höndunum, en þegar var kallað "10 sekúndur eftir" fékk ég eitthvað extra power og kláraði þessar 4 sem mig vantaði uppá að klára upp í 30! Ótrúlega sátt bara en vá hvað ég var búin á því! Lá þarna bara í gólfinu í smá tíma, haha :) En svoooo gott :D

Wednesday, March 14, 2012

Power Clean

Já........ ég mætti alveg á æfingu sko! En ég var bara aftur að æfa mig og læra þessa blessuðu hreyfingu sem ég var að þrjóskast gegnum á mánudaginn. Þetta gekk aðeins betur í dag enda clean aðeins öðruvísi en snatch.

Þetta lúkkar svo auðvelt og ég skil hvert einasta movement í þessu og get gert þetta hægt í skrefum, en að setja þetta saman í eina snögga hreyfingu bara er eitthvað að væflast fyrir mér, gleymi olnbogunum og fer að gera einhverja öfuga bicep krullu eða eitthvað, veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa því. Þetta gekk samt betur í dag en á mánudaginn. Verður vonandi komið fljótlega! :)

Þessa vikuna er ég að vinna 8-16 alla daga. Það hef ég ekki gert síðan í lok september! Rosaleg viðbrigði að fara úr 1-2 klst vinnu í 8 klst vinnu heila viku svo ég er alveg búin á því þegar ég klára æfingu og núna áðan sofnaði ég til dæmis bara á sófanum um áttaleytið og svaf til kl 23!

Á morgun er 4. æfingin í CrossFit Open, Æfing 12.4, kemur í ljós núna á miðnætti hver æfingin verður. Spennandi að sjá... líka spennandi hvort ég muni geta gert hana eins og á að gera (þá er það kallað Rx) eða hvort ég þurfi að gera léttari útgáfuna. Kemur í ljós á morgun :D

Tuesday, March 13, 2012

Svekk

Ohh, maður er ekki í frábæru standi alla daga. Það sannaðist í dag, fyrsta skipti síðan þetta byrjaði allt saman sem ég þurfti að beila á æfingu sem ég var búin að ákveða að fara á. Ástæðan? Mér var frekar illt í maganum í allan dag og hnéð er búið að vera að kvarta síðan í gær. Æfingin átti að vera 4x800 sprettir = hnédauði... Ergo það er kominn tími til að taka pásu einn virkan dag.... Ekki tekið alveg frí á virkum degi síðan 3. febrúar!
Mæti bara galvösk á morgun í staðinn.

Ef ég segist vera eitthvað að spá í að sleppa æfingu á morgun þá megið þið henda þessu í mig, takk :)

Monday, March 12, 2012

Já, ég hata ennþá Burpees!


Eruði ekki að gríííííínast hvað æfingin í dag var ERFIÐ ?!?!?!
Í upphituninni var Evert að reyna sitt allra besta að kenna mér að gera Power Snatch rétt. Ég var farin að vorkenna honum hvað ég var treg og engan veginn að ná þessu. Ég get þetta með priki, og skil alveg út á hvað þetta gengur, en það er eins og samhæfingin milli fóta og handa sé eitthvað ábótavant. Allavega í dag. Vonandi get ég bara komið þessu út úr systeminu og ég muni gera þetta rétt næst. Þakka Everti fyrir þolinmæðina!!

WOD2:
50 Burpees
3 Power Snatch á hverri mínútu (30/20 kg)
500 Sipp
3 OH Squat eða Front Squat á hverri mínútu (30/20 kg)

Ég hata, hata, hata, hata, hata, hata burpees en var búin að hugsa fallega til þessarar æfingu síðan á miðnætti í gær svo ég var ágætlega spennt yfir þessu bara. En um leið og ég var búin með eitthvað 20 burpees þá fór jákvæðnin út um gluggann! Sem betur fer bý ég yfir þeim (stundum) frábæra eiginleika að komast áfram á þrjóskunni og það átti svo sannarlega við í dag. Að þurfa að taka hlé á hverri mínútu til að gera lyfturnar var stundum alveg kærkomið en stundum alveg ótrúlega pirrandi. Í endann þá er maður orðinn svo hægur að mér finnst lyftur á 2ja mínútna fresti mikið sniðugra... en ég ræð þessu víst ekki!

Ég kláraði á 14;42 mín, gersamlega uppgefin og tók mér hvorki meira né minna en 45 mínútur í MWOD (Mobility workout of the day), teygjur og nudd með bolta og rúllu. (Reyndar smá spjall við Sólveigu líka). Ég gersamlega elska að vera með svona lítinn tennisbolta og nota hann til að nudda auma vöðva, það losar svakalega vel um spennu og mér finnst það hjálpa gegn bólgum.



Kjúklingabringan sem ég fékk mér í kvöldmat var síðan svo svakalega góð! Mæli með þessu tilboði frá Kjúklingastaðnum Suðurveri: heil kjúklingabringa, hrísgrjón, ferst salat og Kristall. Rosalega gott. Líka hægt að fá bringu með frönskum, hrásalati, brúnni sósu og Pepsi en nei takk! Hollt skal það vera heillin, það er bara svo miklu betra! :)

Mánudagar


Hvað er þetta með mánudaga? Vinnuvikan hefst á mánudögum hjá flestum og fólk er þreytt eftir helgina og sumir vilja bara leggjast undir feld á mánudögum. Kötturinn Garfield er frægur fyrir að hata mánudaga... sem meikar ekkert sens því hann er köttur sem sefur og étur alla daga vikunnar.

Fyrir rétt rúmum mánuði síðan var ég alveg eins og Grettir. Ég borða, sef og læri alla daga og mánudagar eru lítið frábrugðnir öðrum dögum hjá mér, en samt þoldi ég ekki mánudaga. Ég var alltaf langþreyttust á mánudögum, vildi sofa sem lengst og gera sem minnst. Vissulega fer ég stundum í vinnuna á mánudögum en það er aldrei fyrr en í hádeginu svo það er ekki eins og ég þurfi að rífa mig á fætur eldsnemma.


Það hefur löngum verið sagt að fólk sem ætlar að byrja eitthvað nýtt, fara í átak eða eitthvað, eigi ekki að byrja á mánudögum. Mánudagar til mæðu er líka orðtak sem segir manni að mánudagar séu erfiðir.

CrossFit námskeiðið sem ég fór á byrjaði á mánudegi, þið getið rétt ímyndað ykkur að mér leist ekkert vel á það.

Núna síðastliðnar vikur get ég samt svo svarið það að ég er hætt að hata mánudaga. Ég vaknaði í morgun fyrir kl 8 af engri sérstakri ástæðu og get ekki hætt að hugsa um það hvað ég hlakka til að mæta á æfingu kl 16 þegar ég er búin að vinna. Ég veit nú þegar hver æfingin verður, þar á meðal burpees sem allir hata, en mér er alveg nákvæmlega sama, ég bara hlakka til að hoppa og skoppa og hrista af mér helgina.

Aldrei hefði mér órað fyrir því að ég yrði svona hress og kát á mánudögum en ég er handviss um að aukin hreyfing og þar af leiðandi léttari lund leikur mjög stórt hlutverk í þessari breytingu.

Life is what you make it... Það er pínu kjánalegt að setja allt á hold meðan mánudagurinn rennur sitt skeið og ég er búin að fatta það.  Njótið þess sem eftir er af þessum fallega mánudegi.

Thursday, March 8, 2012

CrossFit Games - Workout 12.3... næææææstum því!

Í dag er þriðja vikan í forkeppninni fyrir CrossFit-leikana þar sem Annie Mist Þórisdóttir mun vonandi verja titilinn sinn sem Fittest Woman on Earth. Á hverjum fimmtudegi í 5 vikur kemur ný æfing og þátttakendur skrifa skorið sitt á netið. Það eru rosalega margir að taka þátt í þessu niðri í CrossFit Reykjavík sem er bara frábært.
Hægt er að sjá hér hver alvöru WOD æfingin í dag er og þarna er líka video af Annie Mist sýna æfingarnar.

Nýliðarnir fá hinsvegar að gera ööööörlítið léttari æfingu, en ekkert mikið léttari... Í staðinn fyrir 50 cm kassahopp vorum við með 45 cm, og í staðinn fyrir 34 kg í axlapressunum vorum við með 25 kg.

Æfingin var semsagt AMRAP á 18 mínútum (As many rounds as possible)
15 kassahopp
12 axlapressur
9 tær í stöng (hanga í stöng og koma tánum upp og snerta stöngina - ég næ því ekki en ég fór eins hátt og ég gat).
Skrá Rounds og reps.

Mitt skor 5 umferðir + 26 reps

Ég skalf alveg í höndunum eftir þetta og þurfti að fá einhvern gaur til að skrá skorið mitt á töfluna, haha, ég bara gat ekki haldið á pennanum!! Svo fékk ég líka 3 blöðrur í lófana! ALVÖRU!!

Blöðrur eru merki um hard work!! No pain no gain!
Eins og sjá má þá sleppti ég því að fara í sund í dag... það er einfaldlega bara skemmtilegra að mæta á æfingu! Sjáum til hvað ég geri á morgun en það verður annað hvort sund eða hádegisæfing :D
Svo er alveg að koma heeeeeelgiiiiiiiii !!!!!!!!!

Wednesday, March 7, 2012

Harðsperrur = gleði og ánægja

Já... harðsperrur ERU góðar!
Dagurinn byrjaði á svo svaaaaakalegum harðsperrum að ég vissi eiginlega ekki hvað ég átti til bragðs að taka... Var varla að komast úr rúminu svo ég lá bara aðeins lengur og las í skólabók, voðalega kósí. Ég elska harðsperrur sko, ekki misskilja mig, bara í morgun voru þær alveg aðeins of miklar!

Æfingin í dag var samt alveg ágæt bara. Ég lærði margt nýtt sem verður líklega trendið næstu mánuðina... alltaf eitthvað nýtt! Svo vann ég vel í harðsperruvöðvunum :)

Þetta byrjaði bara á joint mobility, axlapressum, OH squats, sit-ups með stöng (sama hreyfing og í þessu video, bara með stöng), sippi og einhverju fleiru sniðugu. Svo var röðin komin að WOD..... Ég tók bara WOD2 því númer 1 var greinilega eitthvað fyrir lengra komna, ég er sko langt frá því að mastera double unders og 45 cm kassahopp svo WOD2 hljóðaði bara afskaplega ágætlega. (Venjulegt sipp og 30 cm kassar...)

WOD2:
10x-20x-30x
Deck Squat eða Goblet Squat (með 16/12 kg ketilbjöllu)
Kassahopp (45/30 cm hæð)
Á hverri mínútu 15x single unders sipp og halda svo áfram þaðan sem maður var kominn.
Skrá tíma.

Þetta leit pínulítið ruglingslega út á töflunni en þetta var ekkert mál... Maður gerir bara 15 sipp, 10 squats og 10 kassahopp síðan 20 squats og 20 kassahopp og svo 30 squats og 30 kassahopp. Klukkan pípir á mínútufresti og þá sippar maður 15 sinnum og heldur áfram með hitt...
Þetta tók svo veeeeel á og ég sá svitadropana hrynja af andlitinu á mér í hverju sippi. Ég var með 12 kg bjöllu og fór á 30 cm kassa.
Lokatími: 7:59


Eftir æfingu leyfði ég mér að fá mér eggjanúðlur með kjúkling og grænmeti frá Tian á Grensásvegi. Mjög heimilislegur, kínverskur veitingastaður sem býður upp á að borða í sal, senda heim eða fá take away. Mér finnst maturinn þarna ofsalega góður, það sem ég hef smakkað. Mig langar síðan einhverntíma að prófa Peking öndina sem þau eru með, hef ekki fengið svoleiðis síðan ég bjó í London held ég! Vá.... talandi um London; í ágúst eru 6 ár síðan ég flutti heim frá London, voðalega líður tíminn allt, allt of hratt stundum!

Jæja... svo á morgun er kominn tími á virka hvíld... Ég ætla nú samt að kíkja og sjá hvað WODið er á morgun, ef það er skemmtilegt þá skelli ég mér og tek þá frekar virka hvíld á fimmtudag eða föstudag... Virk hvíld er svona smá slökun fyrir líkamann, semsagt ekki hardcore workout heldur bara sundsprettur eða röskur göngutúr; eitthvað sem fær mann aðeins í gang en gerir mann ekki alveg uppgefinn. Þetta skilst mér af þjálfurunum að sé rosalega gott fyrir líkamann á móti crossfit æfingunum. Síðan er algjört must að taka einn dag í viku fyrir algjöra hvíld. Eitthvað segir mér að algjör hvíld hjá mér verði á laugardögum eða sunnudögum....

Tuesday, March 6, 2012

Blaut í tærnar!

Útihlaup í snjókomu er ekki gaman! Vildi að ég hefði getað verið í gúmmístígvélum bara og að ég hefði munað eftir derhúfu, þá hefði ég séð eitthvað úr augunum kannski!

Ég sá WODið í dag bara laust eftir miðnætti og kveið því í 16 klst að mæta!!! Klukkan 15:50 ætlaði ég bara ekkert að fara!!! En ég fór út í bíl og það kom gott lag í útvarpinu og þá komst ég í stuð. Mætti niðreftir og þar beið fáránlega erfiðasta upphitun sem ég hef séð síðan ég steig fæti þarna inn fyrst!
Joint Mobility
30 xDouble Unders sipp
15x Dýfur
30x Double Unders
15x Dýfur
30x Spordreki á baki 

2-3 umferðir:
10x Deadlift 
10x Hang Power Clean
10x Front Squat
10x Split jerk

200 m hlaup
Deadlift nokkrum sinnum og þyngja í WOD þyngd.

NÚNA er UPPHITUNIN búin!!!! Þvílíkt mayhem og ég var bara orðin ansi þreytt eftir þessa törn!
Svo kom WOD... ég ákvað að taka WOD2 því WOD1 var bara allt of erfitt fyrir byrjandann mig. 

4 umferðir: 400 m hlaup + 21 réttstöðulyfta (ég var með 25 kg)

Eftir 2 umferðir dó ég í hnénu, hlaupin engan vegin að gera sig, svo ég réri 400m seinni tvær umferðirnar, að ráðum Everts. Ég get svo svarið það tekur meira á að róa 400 en hlaupa 400 og mér fannst ég lengur að því líka ef eitthvað er! En svona þarf maður að gera málamiðlanir til að meiða sig ekki meira.

Lokatími 16;08.

Hitti eina hressa inni í klefa sem tilkynnti mér það að þriðjudagarnir væru oft svolítið erfiðir og leiðinlegir, en var ofsalega hvetjandi og frábær. Gleymdi að spyrja hana að nafni samt! Bæti úr því síðar!

Nú er það chill og kósíheit með krúttpungunum mínum tveimur, Maríu og Thelmu, lappirnar upp í loft og chilla!! :D


Monday, March 5, 2012

Fyrsta alvöru CrossFit æfingin

Jæja..... Nú er alvaran hafin! Ég mætti á æfingu áðan í fyrsta skipti sem fullgildur meðlimur. Ég var ofsalega fegin að við Sandra ákváðum að mæta á sama tíma svona fyrst og svo var Sólveig líka mætt á sama tíma svo við fylgdumst að gegnum þetta.
Við tókum WOD1  (WOD1 er aðalæfingin og WOD2 er aðeins auðveldari útgáfa)

WOD 1

Á tíma

50/35 Armbeygjur GS  (50 = strákar, 35 = stelpur)
---
4 umferðir
25 Hnébeygjur
---
50/35 Armbeygjur GS
---
Skrá tíma

Ég var 7;33 og er mjög ánægð með tímann minn!
Svo var gott að komast aftur heim í Hámark og nokkrar möndlur. Í kvöld er nefnilega saumaklúbbur og ég ætla að fá mér eitthvað gott að narta þar. Ég skellti í köku í dag, kúskús-köku með ávöxtum sem ég fann inni á CaféSigrún....síða sem ég mæli eindregið með. Þarna er upplýsingaflóð af hollum og góðum uppskriftum, ráðum og skemmtilegum upplýsingum. Svo er þetta líka svakalega sniðug síða fyrir þá sem eru með fæðuóþol.
Mynd tekin af www.cafesigrun.com

Ég fékk að smakka þessa köku kringum jólin og fannst hún svo ofsalega góð. Í kvöld ætla ég að leyfa saumóstelpunum að gæða sér á henni - vona að þeim finnist þetta jafngott og mér því annars gæti ég klárað alla kökuna, hahaha!

Ætla að skella mér í að skreyta kökuna núna. Svo er æfing aftur á morgun!

P.S. Endilega takið þátt í könnuninni hér til hægri! :)


Sunday, March 4, 2012

Ný skoðanakönnun og niðurstöður úr þeirri fyrstu


Ansi frábært að sjá að 88% þeirra sem svöruðu stunda einhverja líkamsrækt og flestir 3-4 sinnum í viku sem er geggjað :) Áfram svona! Ég hvet þessa þrjá sem segjast ekki stunda neina líkamsrækt að prófa að skella sér í gönguferð, taka smá sundsprett eða gera bara eitthvað skemmtilegt, það er ótrúlegt hvað það hefur góð áhrif á líkamann og sálarlífið að fá hjartsláttinn aðeins í gang. :)

Nú er síðan ný skoðanakönnun komin upp, mig langar að vita hvað ykkur finnst um CrossFit. Endilega takið þátt... Ef ekkert af svarmöguleikunum á við ykkur má endilega skrifa það í komment sem ykkur finnst (það er hægt að gera það nafnlaust meira að segja).

Æfingar sem fullgildur CrossFit meðlimur hefjast á morgun... smá stress í mér eins og fyrir fyrstu æfinguna á grunnnámskeiðinu en þetta verður allt í lagi um leið og maður byrjar. Svo frábært fólk þarna niðurfrá!

Friday, March 2, 2012

Síðasta æfingin - Fight Gone Bad - og árangur í cm!


Að vakna kl 5:45 til að mæta á erfiðustu CrossFit æfingu sem til er, er ekkert grín! Ég vaknaði á slaginu 5:45 og fékk mér Hámark, hálfan banana og 4 heslihnetur (því ég átti ekki möndlur).

Eftir þetta leið mér bara ágætlega... rauk út í rokrassgatið sem er úti og niður í Skeifu. Eftir upphitun pöruðum við okkur saman 2 og 2, ég og Bryndís saman í liði, og svo hófst veislan.

Fight Gone Bad var upprunalega búið til fyrir B.J. Penn sem er MMA fighter... Honum vantaði æfingu sem reyndi jafn vel á og ofurbardagi. Eitthvað sem myndi reyna á vöðvana, úthald, styrk, þol og hugann. Eftir að hann gerði þessa æfingu og búinn að ná andanum aftur þá sagði hann víst "This is like a fight gone bad" og æfingin hefur haldið því nafni síðan. Hér er video sem útskýrir þetta í þaula ef þið hafið áhuga.

Þetta virkar þannig að annar byrjar, gerir alla æfinguna, 3x5 mín kreisíness með mínútupásu eftir hverjar 5 mín og hinn aðilinn telur reps (fjöldi endurtekninga sem keppandinn getur) á hverri stöð, dæmir hreyfingarnar og hvetur keppandann áfram.
Bryndís byrjaði þar sem mér var orðið flökurt (já, þið vitið ég er ekki best í að vakna á morgnana og hvað þá að borða svona snemma!!!)

Fight Gone Bad:
1 mín - max reps wall-balls
1 mín - max reps SDHP
1 mín - max reps kassahopp
1 mín max reps push press
1 mín róður (kcal taldar)
1 mín pása
AFTUR
OG AFTUR

Bryndís stóð sig með prýði, algjör snillingur að ná 79 stigum úr öllum þremur umferðunum, það er frábært að ná sama tempói út í gegn!
Ég hinsvegar byrjaði svakalega vel en í seinni 2 umferðunum var mér svö flökurt að ég hélt það myndi líða yfir mig!!! En ég kláraði þetta að sjálfsögðu og bara nokkuð ágætlega finnst mér miðað við fyrsta skipti og almenna líðan! Bryndís hafði áhyggjur af mér á tímabili og sagði mér að í 2.umferðinni hafi ég orðið græn í framan í smá tíma, takk fyrir pent!

Við Bryndís erum að spá í að gera þetta aftur eftir einn mánuð og sjá bætinguna :)
Ég ætla að skrá hérna hvað ég gat í dag til að geta flett því upp eftir mánuð...



Árangur

Eins og ég lofaði sl. miðvikudag þá ætla ég að deila með ykkur árangrinum sem ég hef að mínu mati svo sannarlega unnið fyrir. 
Ég vil taka það fram að CrossFit snýst ekki um það að missa kíló og sentimetra, heldur snýst það um að hámarka líkamlega getu, vera í sínu besta formi og eiga auðveldara með allar athafnir daglegs lífs. Hinsvegar er það óneitanlega þáttur í þessu öllu saman að vöðvamassi eykst og kílóin fjúka meðan maður er með nokkur aukalega utaná sér...

Svo aaaaaaaað..... here it goes!

Árangur frá 6. febrúar til 2. mars:




Það er mér síðan sönn ánægja að tilkynna að ég hef 
framlengt kortinu mínu hjá
 CrossFit Reykjavík og er nú fullgildur meðlimur! :)


Bloggið mun lifa áfram og þakka ég ykkur enn og aftur fyrir stuðninginn sem ég hlýt frá ykkur sem lesið rausið í mér. Það er ótrúlegt hvað það hjálpar að fá smá pepp, like og góð komment úti í bæ :)
*Knús á ykkur öll*

Thursday, March 1, 2012

Þriðja tímabætingin!

Woop woop! Happy Frog!
Tók Base Line æfinguna aftur í dag...
500 m róður
40 hnébeygjur
30 sit ups
20 armbeygjur
10 upphífingar

Leit ekki á klukkuna fyrr en ég var búin og viti menn!!!! 06:24!!!!! 
Já, ójá!
Þetta kallast líka öðru nafni bæting um 
1 mínútu og 47 sekúndur síðan 14. febrúar. 
Gleði gleði gleði gleði :)

Wednesday, February 29, 2012

Grábjörninn

Næstsíðustu æfingu námskeiðisins er lokið... trúi því bara ekki hvað þetta er búið að vera fljótt að líða!

Double unders sippið er aaalveg að koma, núna get ég það í hverri tilraun... næst er það að tengja saman... hver veit nema mér takist það á föstudaginn!?!?
Svo var það Burgener upphitun sem við lærðum í síðasta tíma. Eftir það fórum við beint í það að læra Hang Power Clean og Split Jerk takk fyrir! Ólympískar lyftingar eru semsagt þrjár æfingar og nú erum við búin með þær allar... HP snörun, HP Clean og Split Jerk.

Þetta er hrikalega skemmtilegt!! Reynir á gersamlega allan líkamann og hausinn ekki síst.

...og mér líður ca svona þegar ég er að gera þessar æfingar ;)

WOD var Grábjörninn. Tvö og tvö saman, annar telur og dæmir meðan hinn gerir:

15 réttstöðulyftur
12 HP Clean
9 Front squats
6 Split Jerk

Síðan er skipt um stöðu. Og endurtekið 3 umferðir. Fyrsta umferð var 10 kg, önnur og þriðja umferð var 20 kg.

Heimavinnan fyrir morgundaginn er að gera aftur Base Line æfinguna sem við gerðum 14. febrúar.

Síííííííðan.... á föstudaginn... þá þarf ég að mæta á lokaæfinguna kl 06:30 um morguninn útaf vinnu og árshátíðar sem er sama dag. Það verður fróðlegt... Þá erum við að fara í 17 mínútna bilaða æfingu sem Evert og Hrönn vilja ekki segja okkur hver er af ótta við að enginn mæti... hún heitir því heillandi nafni: FIGHT GONE BAD. Ég var svona að spá í að gúgla þetta, en í augnblikinu er ég svo þreytt að ég held ég geymi það allvega þar til á morgun.

Síðan gerist meira á föstudaginn: 
Ég lofa því hér með að tilkynna um árangur í sentimetrum og kílóum og sem ég hef misst sl mánuðinn, þetta er spennandi... finnst mér :)

Í kvöld er kvöldmaturinn kókos-karrý kjúklingur með kúskús... þegar ég meika að standa upp! :)

Tuesday, February 28, 2012

Ný tímabæting!!! 3 km hlaup!!!

.............


17;52 beibí!!!!!!! Bæting um 3 mínútur og 7 sekúndur!!!!! 

Tók bara 10 labbandi skref, rétt á meðan ég lagaði tónlistina sem hætti að spila uppúr þurru... annars skokkaði ég allan tímann!! :D

Á nákvæmlega sama tíma fyrir 3 vikum var ég gersamlega búin, hóstandi, móð og másandi þegar ég skráði tímann hingað á bloggið.... núna er ég aaaaðeins að svitna á enninu, öndunin alveg orðin eðlileg, er bara með smá verk í eyrunum því það er svolítið kalt úti... (Bæði hnén eru hinsvegar að kvarta núna, var ekki með neitt teip eða teygjusokk og gleymdi að taka voltaren áður en ég fór... en það er bara að bæta úr því núna og setja kælipoka.....)

Monday, February 27, 2012

Vika 4 hafin!

Útskriftarhelgin mikla að baki, ég fór nú reyndar sem betur fer bara í tvö kökuboð en þar borðaði ég alveg á mig gat... það má svona í spes tilfellum sko (om nom nom).
Ég synti ekki heimavinnuna yfir helgina því ég treysti ekki hnénu í það. Búin að finna ansi mikið til í því alla helgina svo að sundið bíður líkt og hlaupið... Held samt það hljóti að styttast í að ég treysti mér í þetta tvennt. Kviðvöðvinn er síðan allur að koma til, ekki jafn slow og hnéð, sem betur fer!

En æfingin í dag, maður lifandi hvað ég er BÚIN Á ÞVÍ í höndunum!!!!!!

Byrjuðum viku 4 á því að sjá einn mjög hressan gutta taka 170 kg Clean and Jerk eins og ekkert væri.... ég held ég muni nú ekki gera það á lífsleiðinni en þetta var mjög flott hjá honum!

Meðan við horfðum á hann kippa þessari þyngd upp vorum við bara í joint mobility og svo æfðum við double unders sippið..... þrjóskan er að fara að sigra, ég er að segja ykkur það. Ég gat núna í svona 50% af tilraununum gert double under sipp en ég á núna eftir að finna út hvernig ég geri fleiri en eitt í einu.... þetta kemur, sjáið bara til! ;) Svo gerðum við 2x10 Push Jerk og réttstöðulyftur með prik bara, rétt að rifja upp.

Svo fórum við að læra Hang Power Snatch með því að fara líka gegnum stöðurnar í Burgener upphitun. Síðan tókum við stöng, ég var með 10 kg, og við æfðum þetta aftur og aftur og aftur og aftur! Sem er fínt, því þetta er svolítil nákvæmnisvinna sem mun leiða okkur að því að geta gert Clean and Jerk eins og gæinn með 170 kg var að gera... ég ætla að leyfa mér að byrja á 10-15 kg þegar við förum í það ;)

WOD..... 2on/2off amrap og ég dó í höndunum! Vorum tvö og tvö saman, ég og Sandra team-uðum upp að vanda og það gerir einn í einu, 2 mín á fullu og svo 2 mín í hvíld meðan hinn aðilinn gerir. 3x double wall-balls, 6x armbeygjur, 9x HP Snatch, endurtaka þar til 2 mín eru liðnar, þá tekur hinn aðilinn við og gerir það sama, þetta fer svona 4 umferðir á mann.

Ég var geeeersamlega búin!!! Teiknaði hérna inn á frábæra mynd sem sýnir mjög vel hvar ég er búin... þetta er svo slæmt að það er bara ein stelling sem ég finn hérna sem leyfir mér að pikka inn á tölvuna, annars bara gerist ekkert!!! Hahahaha.

Ég fann skemmtilegt myndband á YouTube um daginn og langar að deila því hingað með þeim sem lesa þetta blogg en eru alveg svakalega skeptísk á það ennþá hvort Crossfit sé íþrótt fyrir alla (þó ég ætti að vera ágætis sönnun þess, hahahaha, stelpan sem var svo skíthrædd við þetta og treinaði það í marga, marga mánuði að skrá mig!) 


Heimavinnan fyrir morgundaginn er 3 km hlaup á tíma, sami hringur og við fórum 8. febrúar.... Þá hljóp ég þetta á 20;59.... Ætli það sé raunhæft að stefna á undir 18;30 mín á morgun? Ég hef ekki hugmynd... Ég ætla samt bara að hlaupa eins vel og ég get og pæla sem minnst í tímanum, bara eins og ég gerði fyrir 3 vikum :) Stay tuned........... 

Friday, February 24, 2012

It's Friday, Friday.....

... gotta get down on Friday... 

Klárlega með leiðinlegustu, mest pirrandi en jafnframt mest ávanabindandi föstudagslögum í heimi.... Takk Rebecca Black!!!! 

Þar fyrir utan... já það er föstudagur í dag sem þýðir að ég fór á hádegisæfingu.
Grunnupphitun 2 - Mér tókst alveg þrisvar að gera double under sipp, þetta ætlar að verða svona "get þetta á þrjóskunni" verkefni fyrir mig eins og upphífingarnar.... Síðan var það 2x10 Medicine Ball Clean og kb-sveifla.

Eftir smá töflufund um almennt hreysti lærðum við Push Jerk og ketilbjöllusnörun

Gerðum síðan nokkrar umferðir af axlapressu, Push Press og Push Jerk... já nú fer þetta að verða ansi flókið því æfingarnar eru orðnar svo margar að maður fer að rugla þeim saman.... En æfingin í dag með 10 kg stöng var góð til að finna muninn. Dauð axlapressa er lang erfiðasta hreyfingin því þá notar maður bara kraftinn í höndunum, push press er aðeins léttari og push jerk er síðan auðveldast upp á að geta meiri þyng eða fleiri endurtekningar því þá notar maður mesta orku frá miðju líkamans.

WOD var The Jerk... það er; 3x kb snörun með hægri, 3x hnébeygja með bjöllu, 3x kb snörun með vinstri. Þetta er síðan endurtekið 6x6x6x, 9x9x9x og svo framvegis þar til 7 mínútur eru liðnar. Ég kláraði allt 15x með 6kg bjöllu (þorði ekki að taka 8kg útaf meiðslunum) og ég var búin með 10x snörun með hægri þegar bjallan glumdi. Hendurnar verða aaaaansi lúnar eftir snörun og svipufarið er eftir sippubandið:



Eftir teygjur þá keyrði ég heim og var með svo fáránlega mikla orku í líkamanum (ég þakka frábæra morgunmatnum mínum) svo ég spretti 500 metra í götunni minni, út að stóru hraðahindruninni og til baka. Þetta var ekkert mikill sprettur þar sem þetta er fyrsta sem ég hleyp eftir meiðslin en ég fór þetta á 2 mínútum í sólinni, það var ágætt bara.

Heimavinnan yfir helgina er sund, 4x50m sprettir. Eigum að hita upp 200 metra, synda svo 4x 50m spretti með 90 sek pásu á milli og róa okkur svo niður og synda 100m rólega í lokin. Á planinu sem við fengum í byrjun stendur samt að við eigum að synda 1km aftur og skrá tíma og sjá muninn síðan síðast.... Ég hallast mest að því að gera það frekar... sé hvernig ég verð í hnénu á morgun!

Til að bæta upp fyrir hræðilega föstudagslagið hér að ofan þá enda ég færslu dagsins með einu besta föstudagslagi sem ég veit um.... Góða helgi!


Thursday, February 23, 2012

Tímabæting!!!!

Jáááááááá!!! Fyrsta sönnun þess að það er allt að gerast í er sú að ég dag fór ég aftur í tímatöku í 2km róðri.

Fór á sama tíma dags og ég fór fyrir sléttum tveimur vikum til að passa að allt væri sanngjarnt. Byrjaði að róa og viti menn!
Ég bætti tímann minn um 56 sekúndur!!!! Já, ójá!!! 


Ég var sirka svona ánægð þegar ég steig upp af róðravélinni... en sirka jafn móð og másandi! Fyrir 2 vikum var ég næstum mínútu lengur og titraði öll og skalf af þreytu, en núna var ég bara móð í smá stund, svitnaði jú vel, en svo var það bara búið. Fáránlegt hvað þolið hefur batnað á stuttum tíma :)

Ég reyndi að einblína ekki á tímann minn núna því fyrir 2 vikum hafði ég enga viðmiðun, gerði bara mitt besta, svo ég hugsaði bara um það í dag líka, að gera bara mitt besta, og sjá hversu gott það væri. 
Ég er svo hrikalega ánægð með þennan tíma að ég er með Sólheimabrosið fast á smettinu :)

Á næstu dögum fara síðan að detta inn fleiri viðmiðunartímatökur.... spennandi!  


Wednesday, February 22, 2012

Need more ..... *uuummm* .......kettlebell?

Upphitun 2... liðleikaæfingar og double unders. Ég náði að sippa tvo hringi í einu hoppi aaaaalveg tvisvar. Það er ekkert eðlilegt hvað þetta er erfitt stuff! Maður er vel rispaður eftir svipuhöggin sem sippubandið skilur eftir á höndum og handleggjum þegar þetta tekst ekki... Við æfðum okkur aftur í OverHead Squat og kipping-upphífingum. Ég get ekki gert upphífingar meðan magavöðvinn er svona aumur svo ég æfði mig bara að gera axlahreyfinguna hangandi.

Eftir upphitun fór Hrönn með okkur í undirstöðuatriðin í Medicine Ball Clean og Ketilbjöllusveiflu. Medicine Ball Clean er eiginlega bara afbrigði af hnébeygju, kannski öðrvísi þegar maður er kominn með mjög þungan bolta... en kb sveiflan reynir vel á axlir og magavöðva. Ég gat samt alveg gert þessar æfingar án þess að finna til svo það var mjög jákvætt.
Eftir nokkuð margar tilraunir af þessu fórum við í Tabata (20/10) WOD.

WOD 22. feb - Tabata this:
Medicine Ball Clean 8 umferðir
Planki 5 umferðir
Kb sveifla 8 umferðir
Armbeygjur 6 umferðir

Þeeeeeetta tók á skal ég segja ykkur!!!! Ég hef heldur aldrei heyrt strákana kvarta jafn mikið eftir WOD....

Ég gerði ekki hlaupaheimavinnuna útaf því að hnéð á mér leyfir mér einfaldlega ekki að hlaupa eins og er, en ég segi það og skrifa að ég mun gera þetta hlaupaverkefni þegar hnéð er orðið hlaupahæft!

Heimavinnan á morgun er 2 km róður - það verður spennandi að sjá hvort ég bæti tímann minn frá 9. febrúar, það verða akkúrat 2 vikur frá síðustu tímatöku.

Ég kláraði ávaxta- og grænmetisdeildina í Víði eftir æfingu, keypti líka kjúkling og eitthvað fleira ofurfæði. Ofsalega gott að fylla á tankinn af góðu og heilbrigðu fæði. Ég sver, það heldur manni gangandi mikil lengur og gefur manni alvöru orku.