Monday, March 12, 2012

Mánudagar


Hvað er þetta með mánudaga? Vinnuvikan hefst á mánudögum hjá flestum og fólk er þreytt eftir helgina og sumir vilja bara leggjast undir feld á mánudögum. Kötturinn Garfield er frægur fyrir að hata mánudaga... sem meikar ekkert sens því hann er köttur sem sefur og étur alla daga vikunnar.

Fyrir rétt rúmum mánuði síðan var ég alveg eins og Grettir. Ég borða, sef og læri alla daga og mánudagar eru lítið frábrugðnir öðrum dögum hjá mér, en samt þoldi ég ekki mánudaga. Ég var alltaf langþreyttust á mánudögum, vildi sofa sem lengst og gera sem minnst. Vissulega fer ég stundum í vinnuna á mánudögum en það er aldrei fyrr en í hádeginu svo það er ekki eins og ég þurfi að rífa mig á fætur eldsnemma.


Það hefur löngum verið sagt að fólk sem ætlar að byrja eitthvað nýtt, fara í átak eða eitthvað, eigi ekki að byrja á mánudögum. Mánudagar til mæðu er líka orðtak sem segir manni að mánudagar séu erfiðir.

CrossFit námskeiðið sem ég fór á byrjaði á mánudegi, þið getið rétt ímyndað ykkur að mér leist ekkert vel á það.

Núna síðastliðnar vikur get ég samt svo svarið það að ég er hætt að hata mánudaga. Ég vaknaði í morgun fyrir kl 8 af engri sérstakri ástæðu og get ekki hætt að hugsa um það hvað ég hlakka til að mæta á æfingu kl 16 þegar ég er búin að vinna. Ég veit nú þegar hver æfingin verður, þar á meðal burpees sem allir hata, en mér er alveg nákvæmlega sama, ég bara hlakka til að hoppa og skoppa og hrista af mér helgina.

Aldrei hefði mér órað fyrir því að ég yrði svona hress og kát á mánudögum en ég er handviss um að aukin hreyfing og þar af leiðandi léttari lund leikur mjög stórt hlutverk í þessari breytingu.

Life is what you make it... Það er pínu kjánalegt að setja allt á hold meðan mánudagurinn rennur sitt skeið og ég er búin að fatta það.  Njótið þess sem eftir er af þessum fallega mánudegi.

No comments: