Tuesday, October 9, 2012

Fyrsta heimsóknin til gigtarlæknis


Jæja... þá hef ég loksins skellt mér til gigtarlæknis. Ég hef oft fengið ábendingar um að ég ætti kannski að kíkja og sjá hvað þeir segja, aðallega vegna þess að ég hef verið með verki í baki frá fermingaraldri og slæm í  öllum liðum og fleiru í mörg, mörg ár. Ég hitti Magnús Guðmundsson í Læknasetrinu í Mjódd. Hann spurði mig spjörunum úr, hlustaði mig og ýmislegt fleira. Hann ákvað síðan að senda mig í blóðprufu, bæði almenna og gigtarpróf vegna gruns um vefjagigt. Hann gaf mér líka litlar bláar töflur sem ég á að taka fyrir svefninn í 6 vikur og þá fer ég að hitta hann aftur. Þá tekur hann stöðuna á ný og skoðar niðurstöðurnar úr blóðprufunum. Ef honum líst svo á þá hugsaði hann að hann myndi senda mig í röntgen myndatöku af hryggnum vegna gruns um brjósklos. Hann sagðist ekki skilja hvers vegna ég hefði ekki komið fyrr og sagði mér að fólk biði oft allt, allt of lengi með að fá læknisaðstoð. Það væri mjög slæmt því fólk væri stundum að leita sér hjálpar þegar það er eiginlega orðið of seint. Ég vona að ef það er eitthvað í gangi hjá mér að það sé þá hægt að grípa inn í... ég er nú einu sinni bara 27 ára :)

Hann Magnús bað mig líka um að vera ekki að hamast neitt í tækjasal eða hlaupa eða neitt þannig, en hann bað mig að synda 2-3 sinnum í viku, fara oft í heita potta og/eða gufu, helst að fara í nudd líka og þegar ég minntist á HotYoga þá fannst honum það kjörin hugmynd. Svona rólegt á ég að hafa það í 6 vikur eða fram í miðjan nóvember.

Ég er búin að vera dugleg að sleppa kvöldnaslinu, og ef ég nasla þá er það bara á ávöxtum eða rúsínum og möndlum. Ég reyni að vera dugleg að elda mér hollan kvöldmat, geri það eins oft og ég get.

Til að slútta þessum pósti langar mig að bera fagnaðarerindi:
Ég hef misst 4 kíló síðastliðinn mánuð! Ég er ekki búin að mæla mig með málbandi hinsvegar, ég geri það í kvöld eða á morgun :)