Monday, June 30, 2014

Reykjavíkurmaraþon 2014



Ég hef verið að ganga í gegnum langt tímabil síðustu mánuði þar sem ég er búin að vorkenna sjálfri mér ofsalega mikið, skrokkurinn minn er alveg í rusli og ég reyndi að klóra í bakkann og koma mér af stað en alltaf missti ég gripið og sökk lengra niður í þægindin heimavið.

Í dag tók ég loksins ákvörðun um að nú þyldi ekki lengur við og tók ég því af skarið og skráði mig í Reykjavíkurmaraþonið þann 23. ágúst nk. og er búin að skrá mig í 10 km hlaup. Ég hef á hverju ári sagt "Ég tek þátt á næsta ári, þá verð ég komin í ágætisform og hlýt að geta þetta" og svo hef ég aldrei látið verða af því enda skammast mín fyrir að vera ekki í betra formi en árið áður.



Núna ákvað ég hinsvegar að þó ég sé í engu formi í augnablikinu þá bara skrái ég mig og þó ég þurfi að skríða í mark þá bara er það þannig. Ég þarf ekkert að skammast mín fyrir að vera yfir kjörþyngd en ég þarf að taka mig á svo ég sé með betra þol, það er nefnilega alveg hægt að vera í ágætisformi og með gott þol þó maður sé yfir kjörþyngd, ég hef sannað það fyrir sjálfri mér og öðrum oft og mörgum sinnum.

Ég er búin að stúdera internetið og finna hinar ýmsustu áætlanir sem hafa það að markmiði að hinn venjulegi byrjandi geti hlaupið 10 kílómetra með hlaupaæfingum sem spanna fáeinar vikur. Ég las mér til og fann loksins plan sem mér þykir líklegt til árangurs. Ég setti þetta allt saman upp í tölvunni og er komin með plan fyrir hvern einasta dag næstu 7 vikurnar eða svo!


Ég ákvað að fyrst ég væri að þessu á annað borð þá myndi ég líka hlaupa til góðs og ég ákvað að hlaupa fyrir samtökin Einstök börn. Eftir að ég kynntist Sævarði mínum hef ég lesið mér til um og hlustað á fjölskylduna hans lýsa hvað samtökin hjálpuðu þeim mikið í gegnum árin en fyrir þau ykkar sem ekki vitið þá eru samtökin Einstök börn stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa og jafnvel ógreinda sjúkdóma eða skerðingar. Ástæðan fyrir stofnun félagsins var sú að ákveðin börn í samfélaginu áttu ekki heima í neinum öðrum félagasamtökum og töldu þeir foreldrar sem hófu starfsemi Einstakra barna að þar gætu þau fundið sameiginlegan vettvang til að deila reynslu og vinna að bættum hag barna sinna. 
Ég skelli hlekknum á áheitasíðuna mína svo hingað inn þegar hún er tilbúin.
Uppfært: Hér er hlekkur á áheitasíðuna mína

Ef einhver þarna úti er að velta því fyrir sér að taka skrefið og skella sér í maraþonið þá skil ég alveg nákvæmlega hvað þið eruð að hugsa... "Hvað ef ég kemst ekki alla leið?", "Verð ég ekki langsíðastur/síðust", "Ég hef aldrei hlaupið svona langa vegalengd" eða "Ég get ekki hlaupið út götuna mína í augnablikinu án þess að stoppa" - Þetta er allt eitthvað sem ég hef líka velt mér upp úr. Ég ákvað bara að núna skyldi ég hætta að afsaka mig og kýla á þetta í eitt skipti fyrir öll. 




Ég hlakka til að deila með ykkur hvernig gengur, ég tek einn dag í einu og svo sjáum við hvað gerist 23. ágúst :)


Hér er planið mitt ef einhver hefur áhuga: