Tuesday, September 18, 2012

Vá hvað ég saknaði Hot Yoga!

Margir hugsa um Hot Yoga og sjá fyrir sér kófsveitt fólk í stríði við fáránlegar stellingar og í andnauð vegna  óbærilegs hita, og málið er að það er nákvæmlega það sem Hot Yoga er... Allavega fyrstu 2-4 tímana!

Svona leið mér í febrúar 2011 þegar ég fór í minn fyrsta Hot Yoga tíma. Ég svitnaði svo mikið að vökvinn hefði geta fyllt heilt baðkar, mig svimaði og ég átti erfitt með að vera inni í herberginu, EN kennarinn var búin að gefa þær tilskipanir að þau sem væru að koma í fyrsta skipti þyrftu bara að einbeita sér að því að vera inni í salnum allan tímann og venjast hitanum. Fyrsti tíminn gekk ekkert svakalega vel hvað æfingarnar varðar. Ég fann að ég hafði mjög takmarkað jafnvægi og ég var allt of þung og átti erfitt með margar hreyfingar sem öðrum þarna inni þótti sjálfsagðar. Ég lét það samt ekki á mig fá og mætti aftur daginn eftir. Sá tími var strax betri og ég fann að ég átti mikið auðveldara með að höndla hitann og svitann.

Ég fór að stunda Hot Yoga 4-5x í viku allt fram í nóvember 2011. Þá var ég búin að missa 25 kíló; átta frá október 2010 til febrúar 2011 en 17 kíló missti ég svo með Hot Yoga frá febrúar til október 2011. Þegar kortið mitt rann út í nóvember fannst mér ég vera farin að standa í stað og ákvað að finna mér aðra tegund hreyfingar, ég fór að synda í smá tíma en svo bara endaði með að ég gerði ekki neitt! Í febrúar sl ákvað ég svo að taka á honum stóra mínum og skrá mig í Crossfit. Það var æðislegt! Ég elska Crossfit - mér finnst það alveg ótrúlega gaman, mér leið vel og gekk svakalega vel að koma mér í betra form sem var mjög mælanlegt á árangrinum sem ég náði og eitthvað af vinum og vandamönnum las um hér á þessari síðu. Líf mitt í Crossfit var nú samt ekki lengra en fram í lok apríl en þá tók við mjög mikil vinnutörn útaf BA ritgerðinni og svo leiddi eitt af öðru eins og ég skrifaði um hér í byrjun september.
Ég bætti á mig 6 kílóum í sumar og er núna ofsalega glöð og hamingjusöm yfir að hafa tekið þá ákvörðun að byrja aftur í Hot Yoga, og tek það núna í bland við aðra tíma til að fá smá fjölbreytni í hreyfinguna.

Það sem hefur samt komið mér sem mest á óvart allan þennan tíma meðan ég hef verið að léttast - þyngjast lítillega - léttast aftur - þyngjast um 6 kíló og byrja svo aftur núna að hreyfa mig er það að vigtin segir ofsalega lítið. Auðvitað er freistandi að líta á töluna á vigtinni sem einhvern mælikvarða á árangur en ég er alveg búin að læra það að aðalmælikvarðinn er vellíðan - það að líða vel í eigin skinni er besta gjöf sem hægt er að veita sjálfum sér! Mælingar með málbandi eru síðan miklu áhrifaríkari en margt annað því meðan ég var í Crossfit til dæmis þá hrundi sentimetrafjöldinn meðan vigtin stóð oft í stað heillengi. Ég er því ofsalega sammála grein sem ég las eftir Röggu nagla í gær.

Núna er ég byrjuð aftur í Hot Yoga og vá hvað mér líður strax betur. Gaman að segja frá því að ummálið yfir magann hefur minnkað um 4 sentimetra síðan 5. september og ég hlakka bara til að skoða tölurnar þegar ég er búin að vera að í mánuð :)

Þó að ég hafi ekki stundað HotYoga í næstum heilt ár, þá er alveg magnað hvað líkaminn er snöggur að komast í sitt gamla form, ég finn alveg um leið hvað ég er komin á sama stað í liðleikanum og ég var sl nóvember. Það er bara eins og ég sé að halda áfram þaðan sem frá var horfið. Nema núna eru fyrstu tímarnir ekki kófsveitt fólk í stríði við fáránlegar stellingar í andnauð vegna óbærilegs hita, nei, þetta er fólk eins og ég og þú sem langar bara að líða vel og rækta bæði líkama og sál.

Aðalmálið í Hot Yoga er öndunin og þess vegna fannst mér svo gaman að rekast á þessa grein um Hot Yoga í dag sem er um megingildi þeirra sem stunda Hot Yoga, mæli með henni! :)

Wednesday, September 12, 2012

Sigur!

Ég get ekki annað en glaðst yfir atviki sem átti sér stað í hádeginu í dag.

Ég átti ekki til neitt djúsí í hádegismat heima (því ég þarf að fara í búð) nema gulrætur sem ég kláraði í morgun svo ég ákvað að skella mér á Subway í hádeginu. Ég keypti mér heilsubát hjá þeim sem mér finnst mjög góður en algjörlega án þess að hugsa keypti ég mér gosglas með og labbaði út, voðalega sátt og hamingjusöm.
Þegar ég var að verða búin með matinn hérna í vinnunni þá teygði ég mig í kókglasið og fékk mér vænan sopa... Ekki gekk það betur en svo að mér svelgdist á, ég fékk hóstakast og gat varla kyngt sopanum. Málið er að ég hef ekki látið kók inn fyrir mínar varir í heila viku og viti menn: Ég hafði enga lyst á þessu!

Það er kannski ágætt að bæta því við að ég hellti restinni af kókinu og fékk mér vatn!


Vika búin í Hreyfingu

Nú er ég búin að mæta í ræktina í viku. Fyndið hvað ég finn mikinn mun á bakinu mínu strax. Restin af útlimunum fylgir vonandi eftir fljótlega :) Reyndar var ég svo sárþjáð af harðsperrum sl. helgi að ég átti erfitt með gang og daglegar athafnir, en núna er þetta komið í lag og ég finn bara að ég er léttari á sál og líkama og hressari fyrir vikið :)

Ég er líka búin að vera ofsalega dugleg (finnst mér) að borða betur. Núna hef ég í eina viku tekið með mér nesti í vinnuna, ávexti, grænmeti, salöt, kjúklingabita, smoothies og þess háttar og mikið er það nú gott að grípa bara í epli eða vínber þegar manni langar í súkkulaði. Magnað hvað manni líður mikið betur! Ég undirbý nestið bara um morguninn eða kvöldið áður og það er mun minna mál en ég var búin að ímynda mér. Ég hef alltaf sagt að það sé svo mikið vesen að undirbúa hollt og gott nesti en nei, það er bara einhver mýta!

Dagskrá vikunnar 10.-16. september:
Mánudagur: Frí því mér bauðst að vera í sjónvarpssal eftir vinnu
Þriðjudagur: 30 mín SR-tími og 60 mín Hot Yoga
Miðvikudagur: 60 mín Eftirbruni og 60 mín Hot Yoga
Fimmtudagur: 75 mín Hot Vinyasa Yoga
Föstudagur:  60 mín Zumba og 60 mín Hot Yoga
Laugardagur: Frí
Sunnudagur: 60 mín Hot Yoga (með fyrirvara um að ég hugsanlega sofi lengur og fari frekar út að skokka seinna um daginn)

Ég mun halda uppi fyrri hætti og koma mánaðarlega með nýjustu tölur af vigtinni og sentímetrum, bara svona fyrir mig aðallega því mér þykir það hvetjandi að sjá muninn á mér svart á hvítu :)

Ef einhver þarna úti er að lesa þetta og hugleiða að koma sér af stað, JUST DO IT! :)

Standandi stöður í Bikram Hot Yoga

Wednesday, September 5, 2012

Breyttir tímar

Jæja... Þetta sumarfrí frá bloggsíðunni hefur verið aðeins (miklu) lengra en áætlað var.
Í apríl sl. fór ég á fullt að klára BA ritgerðina mína og síðustu vorprófin, byrjaði svo í nýrri vinnu á Landspítalanum í Fossvogi og tók mér svo frí frá CrossFittinu. Sumarið leið ofboðslega hratt, ég eignaðist kærasta í júní og er í orðsins fyllstu búin að hafa það ofsalega gott. Sundferðir, gönguferðir, bæjarhátíðir, Oslóarferð hafa sett mark sitt á sumarið mitt og ég kvarta ekki yfir neinu, nema einu: Mér tókst að bæta á mig örfáum sambandskílóum í sumar!

Nú segi ég stopp og ætla að gera eitthvað í málunum. (Til að fyrirbyggja allan misskilning samt þá er ég ennþá ástfangin upp fyrir haus af honum Grétari mínum - þarf bara að drattast til að hreyfa mig aftur) ;)

Nú er svo komið að skrokkurinn minn er í tómu tjóni, ég man ekki hvenær ég átti síðast verkjalausan dag. Bakið og hnén eru í ruglinu, ég sef lítið og oftast illa og ég ákvað að það besta sem ég gæti gert væri að byrja aftur í Hot Yoga. Ég er líka búin að panta mér tíma hjá gigtarlækni, eitthvað sem ég ætlaði að vera búin að gera fyrir mörgum árum. Í gegnum vinnuna mína fæ ég rosalega flottan díl á líkamsræktarkorti sem ég get notað að vild í Hreyfingu, Sporthúsinu og Hress fyrir 3900 kr á mánuði og í gær skráði ég mig á kort!
Ég ætla að fara að mæta 4-5x í viku í Hot Yoga í Hreyfingu og svo reyna að kíkja 1-2x í viku í Zumba.

Vonandi næ ég að laga verkina aðeins, það allavega tókst síðast þegar ég æfði Hot Yoga að kappi í tæpt ár. Þá batnaði bakið helling og liðirnir skánuðu til muna, ég missti að auki fjöldann allan af kílóum sem ég væri alveg til í að upplifa aftur. Sælgætisát mun nú bara vera á laugardögum og skyndibitafóður verður nú sett í frí.

Ég vona að þið sem lesið þetta raus fyrirgefið mér þetta langa hlé og það að CrossFittið sé farið í pásu, maður verður að hlusta á líkamann þegar hann kvartar svona sáran eins og ég sé orðin áttræð.

FYRSTA ÆFING Í KVÖLD OG EKKERT MÚÐUR!

Ég sá þessa mynd í morgun sem ég verð bara að setja hér inn að lokum.

Þangað til næst!
Þóranna