Tuesday, April 2, 2013

Píp-test umræðan



Eftir lestur þessarar fréttar og svars Guðrúnar íþróttakennara á Vísi.is varð ég að skrifa eftirfarandi færslu:




Píp-test er að mínu mati fínn mælikvarði á þol. Það er ekkert nema eðlilegt að fólk, og þá sérstaklega börn og unglingar, hafi þol til að skokka og hlaupa ef ekkert líkamlegt aftrar þeim frá því.

Ég var ein af þeim sem átti mjög auðvelt með þetta próf í barnaskóla og var alltaf með þeim síðustu til að gefast upp, ég æfði þolíþróttir og er með keppnisskap á við tvo, en ég kunni líka á líkamann minn og hætti þegar líkaminn sagði stopp.
Það hvarflaði ekki að mér að gera grín eða hlæja að árangri annarra í prófinu, enda var ég klár á því að það voru ekki allir að æfa þolíþróttir, og sumir sem æfðu alls ekki neitt. Það þýðir samt ekki að fyrst að barn æfi engar íþróttir þá þurfi það ekki að hafa þol, síður en svo. Krakkar eiga að mínu mati að leika sér úti, hjóla, hlaupa um og fara í leiki. Til þess þarf þrek og þol.

Til að fá ágæta einkunn í píp-testi þarf ekki að vera einhver yfirburðaíþróttamaður, heldur þarf að hafa aga til að nenna þessu og vera í smá formi.

Mér finnst fáránlegt að heyra að fólki finnist það þurfi að gera útaf við sig í þessu prófi þar sem einkunn er gefin eftir því hversu lengi þú endist í prófinu. Ég veit að íþróttakennarar eru mennskir þó þeir gefi kvarðaða einkunn eftir ákveðnum stuðli, sem skiptir ekki öllu máli þegar á hólminn er komið því það sem skiptir öllu máli er að sýna að þú hafir aga, nennu og sért í eðlilegu formi miðað við aldur. Vinnueinkunnin þín dregur þig þá upp og þú endar með fína einkunn í íþróttum!

Það sem fór alltaf í taugarnar á mér í barnaskóla var fólkið sem mætti í íþróttir og nennti ekki að gera neitt. Tók til dæmis píp-testið upp að því marki að þau "náðu" prófinu og settust svo bara niður, ekki með svitadropa á enninu. Þetta gerðu þau til að vera "kúl". "Betra að fá bara lélega einkunn og nenna þessu ekki heldur en að gera eins og ég get og vera meðalmanneskja og hugsanlega vera strítt"var að mínu mati hugsunarhátturinn hjá þeim. Hverskonar hugsunarháttur er það? Jú, því miður er þetta sá hugsunarháttur sem smitar út frá sér því það er auðveldara að herma eftir þessari hegðun og vera "kúl" en að reyna á sig og komast nær því að standa sig í vel.

Svona agaleysi er að mínu mati ástæðan fyrir því að fólk er á móti þessu prófi.
Það er að mínu mati þetta fólk sem er að orsaka slæmt þrek hjá börnum og unglingum landsins.

---

Á allan hátt er ég þó fylgjandi því að íþróttakennarar fylgist betur með og horfi betur á hópinn. Verðlauni aga, það að gera sitt besta, og lækki rostann í þessum sem eru svo "kúl" að nenna þessu ekki.

Hvetjum börn og unglinga til að læra inn á líkamann sinn, kennum þeim að það er alltaf til árangurs að gera sitt besta og hömrum á því að fólk er mismunandi eins og það er margt!