Tuesday, September 2, 2014

10k hlaup - check

Nú er rúm vika liðin frá Reykjavíkurmaraþoninu og ég hef enn ekki komið mér í að skrifa neitt hér inn. Það er þó skemmst frá því að segja að ég hljóp 10 kílómetrana á 100 mínútum eins og planið var. Ég hefði þó verið á muuuun betri tíma ef ég hefði ekki misstigið mig illa og hrunið í götuna, setið þar í nokkrar mínútur að jafna mig og skakklappast svo síðustu 3.5 kílómetrana í mark. Stolt af mér að hafa klárað þetta, vissulega, en ég er nokkuð viss um að það var fólkið á hliðarlínunni og yndislega fólkið sem styrkti Einstök börn með áheitum á mig sem komu mér alla leið.

Mig langar að þakka öllum kærlega fyrir stuðninginn, teygjusokkurinn og eymslin sem há mér ennþá í dag voru alveg þess virði og gaman að sanna það fyrir sjálfum sér að þó maður hafi aldrei hlaupið utan fótboltavallarins þá er það hægt með smá æfingu og þrautseigju :)


Nú er ferðinni heitið aftur inn fyrir veggi Hreyfingar þar sem ég er með kort og ætla að fara að stunda hot yoga og crosstrainerinn af aðeins meiri krafti en undanfarið.

Annars verð ég að minnast á það hvað er orðið ótrúlega dimmt og kósý á kvöldin! Ég er bara búin að taka fram prjónana og splæsa í dýrindis kertasafn svo ég býð haustið bara velkomið með virtum :)
Með haustinu ætlum við að reyna að finna okkur nýtt heimili... það er búið að taka myndir af E6 og búa til lýsingu á eigninni svo þetta fer allt af stað þegar við finnum hinn fullkomna stað til að búa á... * spennóóóó *

Monday, August 18, 2014

8 km komnir í hús!

Í gær fór ég út að skokka í sólinni. Það var ofsalega fallegt veður og ég fattaði að ef það verður sól næsta laugardag, í Reykjavíkurmaraþoninu, þá verð ég að vera með einhverskonar hlaupasólgleraugu! Ég hljóp að heiman og út að Háskóla Íslands, út Sæmundargötu og þaðan upp á Suðurgötu. Hljóp svo niður að sjó og fór fallega stíginn að Nauthólsvík, meðfram Öskjuhlíð og svo Valsheimilinu og aftur heim. Þetta voru rétt rúmir 8 kílómetrar og ég var 80 mínútur að þessu. Var semsagt 20 mín með hverja 2 km sem ætti að reiknast þannig að ég verði 100 mínútur með 10 kílómetrana... spurning hvort ég reyni að setja mér 90 mínútna markmið og ögra mér aðeins... en við sjáum hvernig ég verð stemmd á laugardaginn :)

Ég hlakka allavega rosalega mikið til hlaupsins og skemmtilegast þykir mér að vera búin að safna smá upphæð til styrktar Einstökum börnum. Það væri algjör draumur í dós ef ég gæti safnað upp í markmiðið mitt sem var 50.000 krónur en ég er rétt rúmlega hálfnuð http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=20822

Ég er að leggja lokahönd á playlistann fyrir hlaupið, komin með compressionsokka og það er bara allt að smella! Meira að segja skrokkurinn er bara ágætur, believe it or not.


Tuesday, July 15, 2014

Hálfnað verk þá hafið er, í orðsins fyllstu

Ég skrapp á Laugarvatn um helgina til að styðja við bakið á Sævarði í sinni fyrstu hjólreiðakeppni þar sem hann stóð sig alveg frábærlega vel.
Ég tók hana Ólöfu Hugrúnu með og saman mönuðum við okkur upp í að skokka 5 kílómetra eins og hlaupaplanið segir til um. Í rigningu, roki og sudda gátum við þetta alveg og vorum bara ljómandi ferskar að hlaupi loknu. Ólöf er svolítið hraðskreiðari en ég en það hjálpaði mér bara að rífa mig í gang og reyna hlaupa hana uppi.

Ég álít það stóran sigur að vera búin að hlaupa helming vegalengdarinnar sem ég fer 23. ágúst eftir einungis 13 daga af æfingum. Æfingarprógramið sjálft er 7 vikur svo ég get ekki annað sagt en að þetta sé hinn fínasti árangur. Nú er bara að halda áfram og bæta jafnt í hraða og tíma og þá skotgengur þetta allt :D

Skemmtilegt að segja frá því líka að á 2 vikum er ég búin að safna helmingi þeirrar upphæðar sem mig langaði að reyna að safna fyrir samtökin Einstök börn. 25 þúsund krónur komnar og ég er mjög bjartsýn á að ná takmarkinu sem var 50 þúsund krónur http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=20822
Risastórt takk til ykkar sem hafið aðstoðað mig við að ná takmarkinu, ég met stuðninginn mikils.

Ég á tíma hjá sjúkraþjálfaranum á föstudaginn eftir viku þar sem ég er búin að komast að því að vinstra hnéð er bara ekki að virka sem skyldi. Það má rekja til Osgood Schlatter aðgerðarinnar sem ég fór í fyrir einhverjum árum og gerði illt verra ef eitthvað er. Það er eins og öll fjöðrun í hnénu sé bara óvirk og ég ætla að sjá hvort hann Halldór geti ekki hjálpað mér eitthvað. Þegar ég pikka upp hraðann finnst mér nefnilega eins og hægri dúi svona eins og hann á að gera en vinstri sé bara staurfótur. Þetta er náttúrulega slæmt fyrir hnéð og bakið og örugglega ýmislegt annað. Þannig aaaaaaað, sjúkró it is!


Monday, July 7, 2014

Tæknilegir örðugleikar

Það er víst svo að tæknin hefur sína vankanta og getur klikkað þegar maður treystir á hana.
Ég uppgötvaði það í gær að þetta frábæra hlaup sem ég átti á fimmtudaginn var ekkert annað en glitch í RunKeeper appinu þar sem eitthvað óvænt hefur gerst í gervihnattasambandinu eða önnur eins álíka óheppni. Ég er því búin að henda þessu fína, fína hlaupi út úr appinu og reikna vegalengdina rétt á ja.is kortasjánni og sá þá að hún var ekki nema um 1,7 km á 15 mín... :( Svolítið svekk en þetta hljómaði líka fáránlega vel, of vel til að það gæti verið satt og því fór ég að skoða málið betur.

Ég er þó hvergi af baki dottin, enda eru alveg 6 vikur í hlaup og í gær hljóp í 3 kílómetrana sem ég átti að gera á laugardaginn og var hálftíma að því. Ég hafði reyndar gleymt að taka ofnæmislyfin mín um morguninn og var alveg að kafna á leiðinni en ég labbaði þá bara oftar inná milli. Ég er líka komin með örlitla beinhimnubólgu og þarf að muna að setja hitakrem á sköflungana áður en ég hleyp af stað. Ég fékk oft beinhimnubólgu þegar ég var í boltanum og var satt að segja alveg búin að gleyma því hvað það er ógeðslega sárt. Ég spilaði lengi með þar til gerðar hitalegghlífar til að finna minna fyrir einkennunum. Ég las mér svo til í gær á doktor.is að beinhimnubólga kemur auðveldlega þegar fólk byrjar að æfa aftur eftir einhverja pásu. Ég hef náttúrulega ekki hlaupið í 2 ár svo þetta er bara ekkert skrítið! ;)



Nú er nýjasti draumurinn minn að byrja að æfa Víkingaþrek í Mjölni. Úff hvað ég held það sé skemmtilegt! Mjölnir er líka á Seljaveginum sem er í göngufæri frá vinnunni minni. Gæti ekki verið betra. Eina sem er að tefja mig frá því er hvað mér finnst dýrt að æfa þar. Ég er að borga ca 8.000 kall á mánuði fyrir kort í Hreyfingu þar sem er frábært úrval tíma og glæsileg aðstaða en einn mánuður í Mjölni er á 12.500 kr eftir að hafa lokið 4ja vikna grunnnámskeiði sem kostar 17.900. Ekki skil ég hvað réttlætir þetta verð. Kannski er húsnæðið þeirra svona dýrt, þó ég efist um það þar sem sjúkraþjálfarinn minn er á hæðinni fyrir ofan og þetta hús er orðið ferlega lélegt. Mér datt líka í hug hvort það sé svona dýrt svo að fólk mæti frekar... einhver svona sálfræði á bak við þetta: "Ég borga svo mikið á mánuði að ég verð bara að mæta". Ef einhver getur útskýrt fyrir mér af hverju þetta er svona dýrt, þá endilega sendið mér skilaboð, takk.

Jæja, on with the show! Þetta hleypur sig ekki sjálft :)

Minni á áheitasíðuna mína til styrktar Einstökum börnum http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=20822

Friday, July 4, 2014

Fyrstu dagarnir

Ég veit ekki hvort þið trúið því en hlaupaundirbúningurinn er búinn að ganga alveg hreint framar vonum í fyrstu vikunni!
Ég byrjaði á mánudag með þetta prógram sem ég setti hingað inn og fyrsta verk var að hlaupa í 15 mínútur. Ég náði að skokka/labba 1,6 kílómeter og meðalhraðinn var 6,41 km/klst. Eftir þetta var ég með blóðbragð í munninum og fékk astmakast (ég hef þjáðst af áreynsluastma síðan ég var unglingur) svo ég þurfti að nota pústið nokkrum sinnum eftir hlaupið meðan ég var að jafna mig.
Þriðjudaginn var hvíld og þá fann ég fyrir harðsperrum. Ég hafði náttúrulega ekki farið út að hlaupa síðan 2012 svo að líkaminn var bara eitt spurningamerki yfir því hvað væri nú að gerast!

Á miðvikudag sagði planið mér að hlaupa í 20 mínútur og nú hljóp ég 2,18 km á meðalhraðanum 6,51 km/klst. Þetta var nú ekki teljandi bæting á hraðanum en úthaldið var meira og ég þurfti bara eitt astmapúst þegar ég kom heim. Ekkert kast, bara svona óþægindi í berkjunum.

Í gær var svo aftur 15 mínútna hlaup og í þetta skiptið er bætingin mjög mikil. Ég hljóp núna 2,53 km á meðalhraðanum 10.08 km/klst. Ég átti helling inni, þurfti ekki að pústa mig eftir hlaupið og hefði getað hlaupið áfram ef hnéð hefði ekki sagt stopp, en ég makaði það bara með Voltaren geli og í dag föstudag, er hvíld. Á morgun er síðan 3 km hlaup og ég held ég geti það bara án nokkurra vandkvæða!

Ég trúi því ekki sjálf hvað líkaminn er fljótur að fagna þessari breytingu þar sem ég hef aldrei verið neinn hlaupari. Jú jú, ég æfði fótbolta og aðrar íþróttir sem krakki og unglingur en var aldrei hlaupari útaf astmanum. Ég man það enn eins og það hafi gerst í gær að ég tók þátt í einhverju Víðavangshlaupi í Mosfellsbæ fyrir hönd skólans þegar ég var eitthvað kringum 12 ára og þá komst ég bara annan hringinn af tveimur og fannst ég vera öllm til skammar. Ég var vön að hlaupa spretti og sprengdi mig strax í langhlaupinu og fékk astmakast. Ég var sett í þetta hlaup því ég hafði unnið einhver spretthlaup í skólanum en það er auðvitað allt, allt annað mál að spretta og hlaupa langhlaup. Ég fagna því þessari breytingu á mér og hlakka til að sjá hvað ég get í hlaupinu 23. ágúst!

Ég minni svo aftur á áheitasíðuna mína fyrir Reykjavíkurmaraþonið þar sem ég safna styrkjum fyrir Einstök börn.


Tuesday, July 1, 2014

Hlaupastyrkur

Nú er síðan mín tilbúin á hlaupastyrkur.is

Ég hleyp fyrir samtökin Einstök börn í minningu Valdimars, bróður Sævarðar, sem ég fékk því miður aldrei að kynnast. Hann lést eftir harða baráttu við sjúkdóm sem kallast Chronic Granulomatous Disease eða CGD þegar hann var aðeins 18 ára gamall. 

Ég veit að samtökin studdu vel við bakið á tengdafjölskyldu minni í gegnum veikindi Valdimars og svo Jóns Þórs sem greindist með sama sjúkdóm og sigraðist á honum fyrir fjórum árum. 
Mig langar að sýna samtökunum stuðning í verki og vonast til að safna 50.000 krónum.


You'll never walk alone 

Valdimar Einarsson 5. ágúst 1991 - 14. september 2009




Monday, June 30, 2014

Reykjavíkurmaraþon 2014



Ég hef verið að ganga í gegnum langt tímabil síðustu mánuði þar sem ég er búin að vorkenna sjálfri mér ofsalega mikið, skrokkurinn minn er alveg í rusli og ég reyndi að klóra í bakkann og koma mér af stað en alltaf missti ég gripið og sökk lengra niður í þægindin heimavið.

Í dag tók ég loksins ákvörðun um að nú þyldi ekki lengur við og tók ég því af skarið og skráði mig í Reykjavíkurmaraþonið þann 23. ágúst nk. og er búin að skrá mig í 10 km hlaup. Ég hef á hverju ári sagt "Ég tek þátt á næsta ári, þá verð ég komin í ágætisform og hlýt að geta þetta" og svo hef ég aldrei látið verða af því enda skammast mín fyrir að vera ekki í betra formi en árið áður.



Núna ákvað ég hinsvegar að þó ég sé í engu formi í augnablikinu þá bara skrái ég mig og þó ég þurfi að skríða í mark þá bara er það þannig. Ég þarf ekkert að skammast mín fyrir að vera yfir kjörþyngd en ég þarf að taka mig á svo ég sé með betra þol, það er nefnilega alveg hægt að vera í ágætisformi og með gott þol þó maður sé yfir kjörþyngd, ég hef sannað það fyrir sjálfri mér og öðrum oft og mörgum sinnum.

Ég er búin að stúdera internetið og finna hinar ýmsustu áætlanir sem hafa það að markmiði að hinn venjulegi byrjandi geti hlaupið 10 kílómetra með hlaupaæfingum sem spanna fáeinar vikur. Ég las mér til og fann loksins plan sem mér þykir líklegt til árangurs. Ég setti þetta allt saman upp í tölvunni og er komin með plan fyrir hvern einasta dag næstu 7 vikurnar eða svo!


Ég ákvað að fyrst ég væri að þessu á annað borð þá myndi ég líka hlaupa til góðs og ég ákvað að hlaupa fyrir samtökin Einstök börn. Eftir að ég kynntist Sævarði mínum hef ég lesið mér til um og hlustað á fjölskylduna hans lýsa hvað samtökin hjálpuðu þeim mikið í gegnum árin en fyrir þau ykkar sem ekki vitið þá eru samtökin Einstök börn stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa og jafnvel ógreinda sjúkdóma eða skerðingar. Ástæðan fyrir stofnun félagsins var sú að ákveðin börn í samfélaginu áttu ekki heima í neinum öðrum félagasamtökum og töldu þeir foreldrar sem hófu starfsemi Einstakra barna að þar gætu þau fundið sameiginlegan vettvang til að deila reynslu og vinna að bættum hag barna sinna. 
Ég skelli hlekknum á áheitasíðuna mína svo hingað inn þegar hún er tilbúin.
Uppfært: Hér er hlekkur á áheitasíðuna mína

Ef einhver þarna úti er að velta því fyrir sér að taka skrefið og skella sér í maraþonið þá skil ég alveg nákvæmlega hvað þið eruð að hugsa... "Hvað ef ég kemst ekki alla leið?", "Verð ég ekki langsíðastur/síðust", "Ég hef aldrei hlaupið svona langa vegalengd" eða "Ég get ekki hlaupið út götuna mína í augnablikinu án þess að stoppa" - Þetta er allt eitthvað sem ég hef líka velt mér upp úr. Ég ákvað bara að núna skyldi ég hætta að afsaka mig og kýla á þetta í eitt skipti fyrir öll. 




Ég hlakka til að deila með ykkur hvernig gengur, ég tek einn dag í einu og svo sjáum við hvað gerist 23. ágúst :)


Hér er planið mitt ef einhver hefur áhuga: 





Friday, February 7, 2014

Ég er klaufi

Hæ, ég heiti Þóranna og ég er klaufi.
Eru ekki annars til einhver sambönd klaufabárða? Ég þarf alvarlega mikið að fá inngöngu í þann hóp.


Ég sparka í þröskulda og rúmbotna.
Ég sting tánum upp undir stóla, sófa, borð, hurðir og hvaðeina.
Ég lem höndum og olnbogum í hurðakarma, kommóður etc.
Ég missi hluti, glös, diska og þess háttar á gólfið.
Ég tek sopa úr dós/glasi og sulla niður á mig eða á gólfið.
Ég set mat á disk og hann rúllar oftar en ekki af disknum hinum megin og á gólfið.
Ég misstíg mig ef það er svo mikið sem 2 cm ójafna í jarðveginum, hef meira að segja tognað við þá iðju.
Vökvi hrekkur stundum ofan í mig þegar ég drekk.
Ég sker niður hvítlauk og chili og þarf svo að klóra mér í augunum (ááááiiiiiiiiiiiiiiiiiiii)
Ég ligg í sófanum/rúminu og skoða símann/iPadinn og missi hann ofan á andlitið á mér. (Trúið mér, iPadinn er verri)
Ég fer í ræktina, alltaf mætt vel tímanlega en kemst að því að ég gleymdi sokkum/nærfötum/íþróttabuxum/skóm (verst að gleyma buxunum... komst að því)
Ég hef nokkrum sinnum límt saman á mér puttana þegar ég reyni að vera fínleg og líma eitthvað smástykku með tonnataki.
Ég hef gengið á gler.
Ég hef nokkrum sinnum misst heyrnatólin mín ofan í glasið mitt í vinnunni, einhverra hluta vegna lifa þau samt enn.
Ég hef fengið nagla upp í ilina á mér þegar ég hljóp um í grænu grasi í sveitinni.
Kind hefur étið útifötin mín.
Ég hef dottið af hestbaki.
Ég hef slitið kviðvöðvafestingu við það að hoppa.
Ég fékk einu sinni hláturskast meðan ég tók kóksopa svo gosið spíttist út um nefið mitt.
Ég set grautargrjón í pott og helmingurinn fer á gólfið.
Ég set 2 dl af salti og 2 tsk sykur í uppskrift

Ég fagna mínum innri klaufa þar sem hann gerir dagana mína oft skemmtilegri.
Það gleður mig líka að vita að þarna úti er alveg heill hellingur af klaufabárðum. 
 Hér eru nokkur dæmi um fólk/dýr sem ég vil fá með mér í samtökin:











og síðast en ekki síst.....


Friday, January 31, 2014

Nýtt ár - betri lífsstíll

Já... ég er og hef alltaf verið á móti einhverjum skyndilausnum og megrunarúrum. Það ætti ekki að koma neinum á óvart. Ég er mesti stuðningsmaður heilbrigðs lífernis, jafnvægi milli hreyfingar og matarræðis, sem þið finnið. Ég á bara stundum svolítið erfitt með að vera ströng við sjálfa mig. Sérstaklega þegar það leiðir til þess að ég þarf að vera ströng við aðra í leiðinni. Sævarður greyið hefur því oftar en einu sinni fengið að heyra það þegar ég argast út í hann fyrir að kaupa kók og nammi, en svo í næstu búðarferð er það ég sem sting upp á að kaupa óhollustuna!

Við erum nú samt á ágætri leið held ég með að finna eitthvað jafnvægi í þessu öllu saman.
Hann er kominn með kort í sömu rækt og ég og það er því auðveldara fyrir okkur bæði að fara í ræktina. Förum bara saman eftir vinnu, voðalega þægilegt.
Ég er svo líka komin með svona ræktarbuddy, hana Kristveigu, sem passar upp á að ég haldi mér við efnið. Það er alveg magnað hvað það fer inn á samviskuna að mæta í ræktina ef maður hefur svona buddy. Þá er maður nefnilega að skilja buddyinn eftir einan ef maður beilar, það er algjört no-no.
Mæli með því að þið finnið ykkur einhvern sem æfir í sömu stöð og með svipaðan vinnutíma sem getur verið svona buddy.

Rútínan hjá mér núna er hot yoga a.m.k. 2x í viku og brennsla + tækjasalur 2-3x í viku.
Ég finn þolið og styrkinn aukast hægt og rólega, sem er ekkert nema jákvætt! :)



Nú það er vert að nefna að nýjasta viðbótin í fjölskylduna mína er litli rauðhærði sonur hennar systur minnar. Hann er alveg ótrúlega sætur og duglegur. Sefur mikið og er algjört draumabarn :) Smelli af honum einni mynd hér eins og stoltri stóru-frænku sæmir :)