Wednesday, September 2, 2015

Dubsmash rugl

Ég á ekki til orð.... Hahaha. Hún Þórey vinkona kynnti mig fyrir forritinu Dubsmash í júlí sem er rosalega hættulegt fyrir fólk sem er mikið eitt heima með ungabarni! Þetta virkar þannig að þarna inni er hafsjór af hljóðklippum úr öllum áttum eins og t.d. bíómyndum og sjónvarpsþáttum, svo tekur appið upp myndband af manni "mæma" textann... Hljómar auðvelt en þetta getur verið mjög erfitt stundum að láta þetta líta út eins og maður sé að segja þetta sjálfur... Ég bjó til nokkur myndbönd og ákvað svo sl mánudag að steypa þeim saman í eitt og deildi með vinum mínum á Facebook. Nú hafa tæplega 1300 manns horft á myndbandið og ég búin að lofa nýju næsta mánudag, þar sem ég á fleiri í pokahorninu.

Skemmtilegt ef einhverjir geta hlegið að vitleysunni í manni :)
Hér er linkur á myndbandið á YouTube http://youtu.be/6ZzeoeBOZH


Bara ef fleiri vilja sjá þetta rugl :)



Ein fjölskyldumynd svona miðvikudags :)

Wednesday, August 26, 2015

Eldað í orlofi

Það er ekki mikill tími sem maður hefur aflögu þegar maður er í fæðingarorlofi, dagarnir renna í eitt og samanstanda aðallega af bleyjum, gráti, hlátri, matargjöfum og svefni barnsins, sem þá nýtist í margar þvottavélahleðslur, tiltekt og mögulega munað af einhverju tagi eins og t.d. að greiða sér eða setjast niður til að borða.

Það eru ófáar uppskriftirnar sem ég hef sankað að mér gegnum tíðina og sá ég það í hyllingum að vera ótrúlega dugleg í orlofinu að prófa nýjar uppskriftir. Það hefur eitthvað lítið farið fyrir því hingað til en í gær tók ég mig til og eldaði dýrindis ítalskan pastarétt. Mikið ótrúlega var hann góður. Ég setti myndir af undirbúningnum á snapchat og það voru margir sem sendu mér fyrirspurnir um hvað ég væri að elda og hvort ég gæti deilt uppskriftinni. Það er að sjálfsögðu lítið vandamál og ég ákvað bara að henda henni hingað inn í leiðinni, á íslensku, þar sem upphaflega er hún amerísk, og ég breytti henni líka örlítið.

Það er aldrei að vita nema ég hendi hingað inn fleiru sem ég bralla í tilraunaeldhúsi Þórönnu.

Við Sævarður fórum til London í desember sl, röltum um eins og óléttu konunni hentaði og settumst nokkuð oft niður til að borða og hvíla lúin bein. Eitt skiptið rötuðum við inn á ítalska staðinn Bella Italia og þar fékk ég mér besta pastarétt sem ég man eftir að hafa smakkað. Ég hef oft leitt hugann aftur til þessa réttar og spáð í því hvort hann hafi virkilega verið svona góður eða hvort ég hafi mögulega bara verið það svöng að allt hefði smakkast svona vel.
Það var því tilvalið að finna uppskrift sem leit út fyrir að vera nokkuð svipuð því sem mig minnti og svei mér þá, þessi uppskrift sem ég notaði í gær var bara ansi nærri lagi.

Uppskriftina fann ég upphaflega á vef alþjóðlegu beinþynningarsamtakanna (NOF) og eitthvað segir mér að það sé vegna þess hve mikill ostur er í uppskriftinni sem er jú kalkríkur og nauðsynlegur fyrir heilsu beina. Upphaflega kemur uppskriftin þó frá kokkinum Nick Stellino.



Canneloni með spínat- og ricottafyllingu
Fyrir 6 manns
Undirbúningstími: 45 mínútur
Eldunartími: 30 mínútur

Innihald:
3 msk ólífuolía
1 bolli saxaður laukur
1/3 bolli sólþurrkaðir tómatar í bitum, olían sigtuð frá
6 hvítlauksgeirar, maukaðir
1/4 tsk piparblanda
500 grömm ferskt spínat, skolað og látið þorna
3 msk smjör
2 msk hveiti
2 bollar léttmjólk
1 lárviðarlauf
1/4 tsk mulinn pipar
1/4 tsk salt
1/4 tsk múskat
500 gr ricotta ostur (fæst í Fjarðarkaupum)
1 egg, pískað létt með gaffli
1 1/2 bolli og 2 msk nýrifinn parmesan ostur
1/2 bolli nýrifinn romano ostur
1 tsk salt
1/2 tsk mulinn pipar
1 msk söxuð fersk steinselja
2 bollar niðursoðnir tómatar (maukaðir, t.d. með töfrasprota)
1 pakki af cannelloni pasta frá Barilla (eða ferskt pasta í sneiðum)

Aðferð:
Spínatfylling: Hitið ólífuolíu í stórri pönnu á meðalhita. Bætið við lauk, sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og piparblöndu og steikið þar til laukurinn mýkist (u.þ.b. 6 mínútur). Bætið spínatinu við, lúku fyrir lúku, og steikið þar til vökvinn úr spínatinnu er horfinn (u.þ.b. 6-8 mínútur). Látið kólna.

Parmesan béchamel sósa: Bræðið smjörið við miðlungshita í meðalstórum potti. Bætið hveitinu útí og hrærið á meðan með trésleif þar til vel blandað saman. Hafið á hitanum í 2-3 mínútur og hrærið í á meðan, þá ætti þetta að verða svona nokkurnveginn eins og þunnt lím sem kallast á ensku roux og er engan veginn jafnþykkt og hin íslenska smjörbolla sem margir þekkja við gerð uppstúfs. Takið blönduna af hitanum.
Takið annan meðalstóran pott og hitið mjólk, lárviðarlauf, salt, pipar og múskat þar til mjólkin fer að sjóða. Takið þá lárviðarlaufið úr. Setjið smjörblönduna aftur á hitann, hellið sjóðandi mjólkurblöndunni varlega saman við og þeytið með písk á meðan til að minnka líkurnar á kekkjum. Haldið áfram að hræra í 3-6 mínútur á meðlhita eða þar til blandan hefur þykknað. Takið þá pottinn af hitanum og hrærið 1 bolla af parmesan osti útí þar til hann bráðnar. Kryddið með salti og/eða pipar ef ykkur finnst þurfa.

Haldið áfram með spínatfyllingu: Takið stóra skál og blandið í hana ricotta ostinum, egginu og 3/4 bolla af béchamel sósunni. Bætið svo spínatmixinu útí sem er nú orðið kalt, 1/2 bolla parmesan osti, 1/2 bolla romano osti, salti og pipar. Hrærið vel og setjið til hliðar.

Lokaskrefin: Hitið bakarofninn á 190 gráður.
Smyrjið stórt lasagne form og hellið tómatósunni í botninn. Fyllið cannelloni hólkana af fyllingu með teskeið eða setjið vel af fyllingu á pastasneiðina og rúllið upp í vindling. Setjið hólkinn í tómatsósuna og endurtakið þar til þið hafið fyllt formið (Ég notaði 28 hólka, 14/14). Hellið restinni af béchamel sósunni yfir tilbúnu hólkana og stráið svo 2 msk af parmesan og söxuðu steinseljunni yfir alltsaman.

Bakið í 25-30 mínútur þar til pastað er orðið heitt í gegn og sósan er orðin ljósbrún.
Látið kólna í 10 mínútur. Berið fram með fersku salati og hvítlauksbrauði.