Monday, August 18, 2014

8 km komnir í hús!

Í gær fór ég út að skokka í sólinni. Það var ofsalega fallegt veður og ég fattaði að ef það verður sól næsta laugardag, í Reykjavíkurmaraþoninu, þá verð ég að vera með einhverskonar hlaupasólgleraugu! Ég hljóp að heiman og út að Háskóla Íslands, út Sæmundargötu og þaðan upp á Suðurgötu. Hljóp svo niður að sjó og fór fallega stíginn að Nauthólsvík, meðfram Öskjuhlíð og svo Valsheimilinu og aftur heim. Þetta voru rétt rúmir 8 kílómetrar og ég var 80 mínútur að þessu. Var semsagt 20 mín með hverja 2 km sem ætti að reiknast þannig að ég verði 100 mínútur með 10 kílómetrana... spurning hvort ég reyni að setja mér 90 mínútna markmið og ögra mér aðeins... en við sjáum hvernig ég verð stemmd á laugardaginn :)

Ég hlakka allavega rosalega mikið til hlaupsins og skemmtilegast þykir mér að vera búin að safna smá upphæð til styrktar Einstökum börnum. Það væri algjör draumur í dós ef ég gæti safnað upp í markmiðið mitt sem var 50.000 krónur en ég er rétt rúmlega hálfnuð http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=20822

Ég er að leggja lokahönd á playlistann fyrir hlaupið, komin með compressionsokka og það er bara allt að smella! Meira að segja skrokkurinn er bara ágætur, believe it or not.