Margir hugsa um Hot Yoga og sjá fyrir sér kófsveitt fólk í stríði við fáránlegar stellingar og í andnauð vegna óbærilegs hita, og málið er að það er nákvæmlega það sem Hot Yoga er... Allavega fyrstu 2-4 tímana!
Svona leið mér í febrúar 2011 þegar ég fór í minn fyrsta Hot Yoga tíma. Ég svitnaði svo mikið að vökvinn hefði geta fyllt heilt baðkar, mig svimaði og ég átti erfitt með að vera inni í herberginu, EN kennarinn var búin að gefa þær tilskipanir að þau sem væru að koma í fyrsta skipti þyrftu bara að einbeita sér að því að vera inni í salnum allan tímann og venjast hitanum. Fyrsti tíminn gekk ekkert svakalega vel hvað æfingarnar varðar. Ég fann að ég hafði mjög takmarkað jafnvægi og ég var allt of þung og átti erfitt með margar hreyfingar sem öðrum þarna inni þótti sjálfsagðar. Ég lét það samt ekki á mig fá og mætti aftur daginn eftir. Sá tími var strax betri og ég fann að ég átti mikið auðveldara með að höndla hitann og svitann.
Ég fór að stunda Hot Yoga 4-5x í viku allt fram í nóvember 2011. Þá var ég búin að missa 25 kíló; átta frá október 2010 til febrúar 2011 en 17 kíló missti ég svo með Hot Yoga frá febrúar til október 2011. Þegar kortið mitt rann út í nóvember fannst mér ég vera farin að standa í stað og ákvað að finna mér aðra tegund hreyfingar, ég fór að synda í smá tíma en svo bara endaði með að ég gerði ekki neitt! Í febrúar sl ákvað ég svo að taka á honum stóra mínum og skrá mig í Crossfit. Það var æðislegt! Ég elska Crossfit - mér finnst það alveg ótrúlega gaman, mér leið vel og gekk svakalega vel að koma mér í betra form sem var mjög mælanlegt á árangrinum sem ég náði og eitthvað af vinum og vandamönnum las um hér á þessari síðu. Líf mitt í Crossfit var nú samt ekki lengra en fram í lok apríl en þá tók við mjög mikil vinnutörn útaf BA ritgerðinni og svo leiddi eitt af öðru eins og ég skrifaði um hér í byrjun september.
Ég bætti á mig 6 kílóum í sumar og er núna ofsalega glöð og hamingjusöm yfir að hafa tekið þá ákvörðun að byrja aftur í Hot Yoga, og tek það núna í bland við aðra tíma til að fá smá fjölbreytni í hreyfinguna.
Það sem hefur samt komið mér sem mest á óvart allan þennan tíma meðan ég hef verið að léttast - þyngjast lítillega - léttast aftur - þyngjast um 6 kíló og byrja svo aftur núna að hreyfa mig er það að vigtin segir ofsalega lítið. Auðvitað er freistandi að líta á töluna á vigtinni sem einhvern mælikvarða á árangur en ég er alveg búin að læra það að aðalmælikvarðinn er vellíðan - það að líða vel í eigin skinni er besta gjöf sem hægt er að veita sjálfum sér! Mælingar með málbandi eru síðan miklu áhrifaríkari en margt annað því meðan ég var í Crossfit til dæmis þá hrundi sentimetrafjöldinn meðan vigtin stóð oft í stað heillengi. Ég er því ofsalega sammála grein sem ég las eftir Röggu nagla í gær.
Núna er ég byrjuð aftur í Hot Yoga og vá hvað mér líður strax betur. Gaman að segja frá því að ummálið yfir magann hefur minnkað um 4 sentimetra síðan 5. september og ég hlakka bara til að skoða tölurnar þegar ég er búin að vera að í mánuð :)
Þó að ég hafi ekki stundað HotYoga í næstum heilt ár, þá er alveg magnað hvað líkaminn er snöggur að komast í sitt gamla form, ég finn alveg um leið hvað ég er komin á sama stað í liðleikanum og ég var sl nóvember. Það er bara eins og ég sé að halda áfram þaðan sem frá var horfið. Nema núna eru fyrstu tímarnir ekki kófsveitt fólk í stríði við fáránlegar stellingar í andnauð vegna óbærilegs hita, nei, þetta er fólk eins og ég og þú sem langar bara að líða vel og rækta bæði líkama og sál.
Aðalmálið í Hot Yoga er öndunin og þess vegna fannst mér svo gaman að rekast á þessa grein um Hot Yoga í dag sem er um megingildi þeirra sem stunda Hot Yoga, mæli með henni! :)
No comments:
Post a Comment