Wednesday, October 9, 2013

Dagur 9

Vikuuppgjör
Jæja, haldiði ekki að fyrsta vikan hafi gengið svona líka vel! Ég er mjög stolt af mér að hafa ekki svindlað á neinu af markmiðunum sem ég setti mér og held að þetta verði bara ekkert mál það sem eftir er. Ég finn að ég er léttari í lund og hressari á morgnana, léttari á mér, liðugri og með betri húð en fyrir viku. Vigtin sýnir líka að hún er sátt við þetta, 2 kíló fokin og allt í hamingju!!


Auðvelt að pakka sér inn í bómul
Ég held ótrauð áfram inn í viku tvö af nýjum og betri lífstíl. Það er rosalega gaman að finna hvað manni líður betur þegar maður pælir aðeins í því sem maður setur ofan í sig og hreyfir sig almennilega. Alveg magnað líka hvað maður er svo fljótur að gleyma því og pakka sér inn í bómull þegar maður er latur. Nú er ég staðráðin í því að þurfa ekki að upplifa það aftur.

Þess vegna hef ég ákveðið að deila svolitlu með ykkur:

Vonleysi og frestunarárátta er eitthvað sem ég hef lengi barist við. Það er engin afsökun en það tengist líklega því að ég æfði íþróttir á fullu gegnum allla barnæsku og unglingsár. Ég borðaði eins og hestur og var í svo góðu formi að ég var með sixpakk og var t.d. sterkari í fótunum en margir af strákunum í Betrunarhúsinu sem var og hét í Garðabænum. Þegar ég hætti í fótbolta vegna hnjámeiðslanna minna hélt ég áfram að borða svipað magn og áður og hreyfði mig miklu minna. Ég reyndi að fara í ræktina, prófaði Nautilus, Hreyfingu, Sporthúsið og Baðhúsið en var samt ekki að finna mig. Ég fór á allskyns námskeið, dansfitness, bodycombat og allt þar á milli. Keppnisskapið í mér var bara ekki sátt við að fá ekki að "vinna" og hafa "keppinauta" svo ég gerði þetta flest með hálfkáki og borðaði svo nammi og gos og pizzur og bara nefndu það!

Mér fannst ég feit á efri árum barnaskóla þar sem ég var hávaxin, stórbeinótt og með mikinn vöðvamassa. Mér fannst ég líka feit allan Menntaskólann en var samt í rosalega góðu formi. Mér finnst það ekki merki um hamingju að vera grannur, en fyrir mitt leyti þá líður mér illa þegar ég er feit og kemst ekki í fötin sem ég á og get ekki gert allt sem ég vil. Með þetta feita hugarfar fór ég út í lífið og flutti til Englands bara til að reyna að finna sjálfa mig og sjá hvað ég vildi gera í lífinu. Úti í Englandi er ekki svona augljós útlitsdýrkun og hér. Það var enginn að skipta sér að því hvernig ég leit út svo ég gerði bara það sem mér sýndist. Þegar ég kom aftur heim fann ég að ég var feitari en normið og reyndi að gera eitthvað í því en alltaf var það sama sagan. Ég afsakaði sjálfa mig með því að segja hluti eins og "eina sem mér finnst skemmtilegt er fótbolti". Ég reyndi að byrja aftur í fótbolta en ég var bæði í mjög lélegu formi og hnén og ökklarnir voru bara ekkert sátt við þetta. Enn og aftur leið mér eins og algjöru failure og fór að finna allar afsakanir í bókinni. Ég fór með frænku minni á námskeið hjá Báru og það gekk vel og ég léttist um kíló á viku fyrstu 4 vikurnar en svo stóð ég bara í stað. Sentimetrarnir fuku reyndar aðeins en mér var alveg sama. Vigtin haggaðist ekki svo ég bara nennti þessu ekki.

Ég fitnaði og fitnaði og var orðin alveg rosalega óhamingjusöm en alltaf með glaða frontinn í vasanum. Mér leið svona eins og gömlu Nokia símunum, það var hægt að skipta um front á þeim eftir hvaða skapi maður var í. Ég gerði það. Ég var mikið úti meðal fólks og var hressasta pían í partýinu til að láta ekki á neinu bera en heima var ég óhamingjusöm og borðaði óhollan mat og horfði á sjónvarpið.

Inn á milli komu samt alltaf smá moment þar sem ég ákvað að gera eitthvað en ég gafst alltaf upp.

Ég fór að leita mér læknisaðstoðar þar sem ég fann að það var ekki allt með felldu. Eftir margar rannsóknir komst ég að því að ég er með sjúkdóm eða heilkenni sem kallast PCOS. Hjá mér veldur hann meðal annars því að ég er með allt, allt, allt of hátt magn af testósteróni í líkamanum. Það er meginástæða þess að þegar ég fitna þá fitna ég í andlitinu og um mig miðja. Þetta heilkenni veldur því líka að ég vinn illa úr næringarefnum sem olli því að ég fitnaði miklu, miklu hraðar en eðlilegt þykir. Ég fékk við þessu lyf sem gersamlega komu öllu í gang hjá mér. Ég missti 7 kíló bara við það að byrja á lyfjunum og var það að mestu leyti bjúgur sem fór að leka af mér. Síðan byrjaði ég að stunda hot yoga 4-5x í viku og viti menn, áður en langt um leið var ég búin að missa 25 kíló!! Það lifnaði yfir mér og ég var miklu hressari og mér leið rosalega vel. Ég ákvað að skrá mig á crossfit námskeið sem var alveg rosalega skemmtilegt. Eftir rúma 2 mánuði þó komu blessuð meiðslin mín og sköruðu leikinn. Ég reif kviðvöðvafestingu á æfingu og eftir það fór allt down-hill. Hnén fóru alveg að klikka og ökklarnir og bakið voru farin að valda mér miklum óþægindum. Ég hélt þó áframa ð borða hollt og hélt mér eins og ég vil vera.

Ég fann þó hvað ég stirðnaði hratt upp og líkaminn var alveg orðinn tjónaður svo ég fór til læknis, í þetta skipti var mér bent á að fara til gigtarlæknis sem ég gerði. Hann skoðaði mig og tók blóðprufur og gaf mér dauðadóminn: Vefjagigt. Læknirinn bannaði mér að gera gersamlega allt nema hann sagði að sund, jóga og göngutúrar væru í lagi. Dauðhrædd við þetta gerði ég það sem mér var sagt að gera og æfði svona low-intensity æfingar að einhverju leyti. Í kringum jól/áramót í fyrra sprakk ég samt alveg á limminu og hætti að mæta svona vel í ræktina og fór að borða allt sem mér sýndist. Ég byrjaði  í sambandi með yndislegasta æðibita í heimi og við erum bæði mjög mikið fyrir góðan mat. Öllu má nú ofgera og fyrr en varði var ég búin að bæta á mig 15 kílóum!

Núna hef ég í síðasta skipti kvatt þessa ljótu tölu á vigtinni. Ég finn það svo vel hvað mér líður miklu betur þegar ég borða hollt og ég er svo fegin að Meistaramánuður er concept sem einhverjir snillingar bjuggu til því ég á þeim það að þakka að ákveða að sparka í rassinn á sjálfri mér og hætta þessu sukki og lifa hollara lífi í eitt skipti fyrir öll. Keppnisskapið er alveg sátt við að minn helsti keppinautur sé ég sjálf og sigrarnir eru þessir litlu eins og að líða vel þegar ég lít í spegilinn.

Ég veit hvað er hollt að borða, mér finnst það gott og mér finnst gaman að hreyfa mig þó ég megi ekki gera allt sem mér sýnist. Ég kann núna að aðlaga mig að aðstæðum og held ótráuð áfram inn í betra líf. Ég byrjaði hjá sjúkraþjálfara sem er að hjálpa mér mikið, ég mæti í Body Balance, Hot Yoga, fer í sund, æfi á crosstrainernum og bráðum fæ ég æfingaplan frá einkaþjálfara, sérhannað fyrir mig og minn vesenisbúk.

Það er einlæg ósk mín að allir upplifi það að langa að breyta til í lífinu hjá sér. Sama á hvaða hátt það er.
Aðalatriðið er að hætta að bíða eftir tækifærinu. Tækifærið er núna! Nýttu það!


Dagurinn í dag
Morgunmatur: Grænn safi
Millimál: 3 pínulitlar íslenskar gulrætur og vatn
Hádegismatur: Örlítill afgangur af grjónagraut, hrökkbrauð, rófa og vatn
Millimál: Nektarína, nokkrar rúsínur. 300 ml Nectar próteindrykkur eftir æfingu
Kvöldmatur: Æðislega góður límónukjúklingur með sætum kartöflum

1 comment:

Inga Lóa said...

Flottust !!!!