Friday, October 18, 2013

Dagar 17 og 18

Veikindi



Það er ekki gaman að vera veik. Ég pantaði símatíma hjá vakthjúkrunarfræðingi á heilsugæslunni minni á fimmtudagsmorgun og hún bjallaði stuttu síðar. Henni fannst réttast að ég kæmi niður á stöð, sem ég gerði um klukkan 10. Ég fékk að fara beint inn til hennar og hún tók blóðþrýstinginn sem var nokkuð ágætur en lægri mörkin voru kannski í það lægsta. Svo mældi hún hemóglóbín til að gá hvort ég væri blóðlítil, það kom vel út eða yfir 130. Hún tók nokkur önnur test og allt var í lagi þannig að hún stóð á gati og bað Reyni vaktlækni að líta á mig. Ég fór strax yfir til hans og hann framkvæmdi allskonar tauga- og jafnvægispróf með tilliti til hvort ég væri með einhverja steina í eyrunum sem væru að valda þessum svima. Svo virtist ekki vera svo hann mældi CRP til að athuga hvort merki væri um bakteríusýkingu. Það var neikvætt líka. Þá mældi hann blóðþrýstinginn aftur, og núna fyrst sitjandi og svo standandi. Kom í ljós að þrýstingurinn féll við að standa upp og þá svimaði mig líka meira. Doktor Reyni grunar að ég sé með einhverja veirusýkingu og/eða ofþornun því ég væri greinilega mjög þurr, ráðlagði mér að drekka a.m.k. 2 lítra af vökva næstu daga, drekka powerade og safa. Hann sagði að það væri allt í lagi ef ég myndi ekki fá matarlystina strax, bara vildi að ég drykki. Ég hef verið mjög dugleg að drekka en fer að læknisráði að sjálfsögðu og drekk meira. Við Sævarður fórum í búð og keyptum allt sem mig langaði í sem var hvorki meira né minna en Powerade, engiferdrykkur, frostpinnar og ein ostaslaufa. Ég gat borðað ostaslaufuna í kvöldmat og var það mikið fagnaðarefni.

Föstudagsmorgun er sviminn enn nákvæmlega eins og flökurleikinn gerði vel vart við sig í morgun. Um klukkan 13 náði ég að borða smá morgunkorn með mjólk sem verður að teljast skref í rétta átt en höfuðverkurinn og allt er við það sama.

Afþreyingarefni í veikindum
Mér þykir það frekar leiðinlegt að hanga heima og vera svona slöpp. Ég bara sef og glápi á sjónvarpið til skiptis. Ég er búin að horfa á alla þætti í þeim seríum sem ég fylgist með núna, Once Upon a Time, Once Upon a Time in Wonderland, Revenge, The Biggest Loser, Downton Abbey, Hart of Dixie. Svo bíð ég spennt eftir að hitta stelpurnar og geta horft á Pretty Little Liars, Ravenswood, Drop Dead Diva og The Client List. Þetta hljómar kannski sem ógrynni af þáttum en það kemur bara einn af hverjum þætti á viku svo þetta er ágætt miðað við manneskju sem horfir lítið á RÚV. Ég er líka hálfnuð með seríu tvö af Call the Midwife. Alveg magnað hvað aðalleikkonan minnir mig oft á mömmu mína!

Á fimmtudag kom út fjórði þátturinn um Meistaramánuð. Hann má finna hér. Í þessum þætti var aðeins rætt um það hvernig það er að koma sér af stað frá núlli eða eftir langt hlé og það var einnig rætt um hugleiðslu. Ég er mjög sammála því sem kom fram í þættinum, sérstaklega þar sem ég hugleiði í slökunarstundinni eftir yoga tímana sem ég fer í og veit ekki hvar ég væri án þessara mínútna þar sem ég bara er og geri ekki neitt annað.

Komst til þjálfarans
Á fimmtudag eftir tveggja tíma heimsókn á heilsugæsluna þurfti ég að skreppa niðreftir í Hreyfingu. Ég átti tíma hjá einkaþjálfaranum sem hafði frestast um 2 vikur þá þegar. Ég varð því að fara og fá þessa mælingu og æfingaprógram. Eftir þessa stuttu heimsókn var ég orðin verulega máttfarin og fór heim og sofnaði. Hún mældi mig þó hátt og lágt hún Árný og lét mig fá mjög fínt prógram sem ætti að henta mér vel. Hlakka til að prófa það þegar ég treysti mér í æfingar. Það verður vonandi í næstu viku. Vigtin hjá henni staðfesti líka að ég hef misst 4 kíló það sem af er október og er fegin að sú tala hafði ekki aukist meðan ég er lasin. Fátt verra en að léttast vegna veikinda finnst mér, það getur verið erfitt að jafna sig.

Nú bíð ég bara og vonast til að þessi leiðindi líði hjá. Reyni að borða eitthvað og drekk eins og ég get. Sævarður hugsar vel um mig, þessi elska. Hann er líka búinn að vera alveg fáránlega duglegur það sem af er Meistaramánuði. Einkajálfun og fótbolti í bland gerir honum gott sýnist mér :)


Máltíðir
Þar sem það er engin regla á því sem ég næ að borða þessa dagana þá er ég ekkert að skrifa það hér eitthvað sérstaklega. Ég fagna bara því sem ég næ að borða.

No comments: