Tuesday, October 22, 2013

Dagur 22

Þrjár vikur!
Í dag eru þrjár vikur liðnar af Meistaramánuði og ég finn vel áhrifin sem þessi nýji lífstíll hefur á mig. Fyrir utan harðsperrur í handleggjunum eftir prógrammið í gær þá finn ég allskonar breytingar á mér sem ég fatta núna að ég saknaði. Mig langar að lista upp þessar breytingar í lok Meistaramánuðar þannig að stillið inn eftir viku ef þið hafið áhuga :)

Ofþornun
Heilsan er öll að skríða saman. Ég finn enn fyrir smá höfuðverk og smá léttum svima þegar ég stend upp en ekkert í líkingu við líðanina alla síðustu viku. Ég ætla í hot yoga á morgun og er því að passa að vökva mig vel og vandlega og svo þarf ég að muna að drekka mjög vel eftir tímann líka.
Ég hélt ég væri að drekka alveg nóg af vatni, þar sem eitt af markmiðunum mínum var að drekka meira vatn. Þess vegna er svolítil íronía í því að ég hafi lent í svona dehydration eða ofþornun. Þetta skýrist samt ef við krefjum til mergjar nýja lífstílinn sem ég er að tileinka mér:
1. Ég hef skorið burt mikið af unninni matvöru úr matarræðinu. Unnin matvara inniheldur mikið meira salt en hreinar afurðir.
2. Ég drekk núna smá gos á laugardögum í staðinn fyrir hvenær sem mig langaði (gos eins og kók heldur vökvanum frekar í líkamanum)
3. Ég hreyfi mig meira og stunda hot yoga. Í hot yoga svitnar maður mikið og það er mælt með að fólk drekki vel fyrir og eftir tímana, en ekki á meðan þeim stendur.

Þetta er stórt skref fyrir einn líkama að díla við á einu bretti svo það er svosem skiljanlegt að ég hafi lent í ofþornun. Ég hef ekki passað að drekka nægilega mikið í samræmi við þessa þætti sem ég taldi upp. En nú er öldin önnur og ég passa mig í framtíðinni að drekka enn meira vatn. Það sem við erum heppin hérna á Íslandi að hafa aðgang að svona góðum svaladrykk beint úr krananum og það kostar okkur ekki neitt.

Smá könnun sem ég gerði
Mig langar að segja ykkur frá því svona til gamans að ef þú drekkur hálfan líter af gosi (sem kostar að meðaltali 170 kr í verslunum) á hverjum degi í heilt ár þá kostar það þig "bara" ca. 62.050 krónur!!
Ég þekki síðan marga sem ég veit fyrir víst að drekka auðveldlega tvo lítra af gosi (sem kostar að meðaltali 290 kr í verslunum) á dag og þá er kostnaðurinn kominn upp í 105.850 krónur!
Segjum sem svo að þú minnkir þetta niður í hálfan líter einu sinni í viku þá eru það bara ca. 8.840 krónur.... Pælum aðeins í þessu. Hvað getur þú gert við 60-100 þús kr aukalega á ári?


Máltíðir dagsins
Morgunmatur: Safi með gulrótum, appelsínu og engifer. Plóma
Hádegismatur: Restin af súpunni og brauðbollur 
Kvöldmatur: Pasta og ostakjötbollur í mjúkri tómatsósu (notaði mjólk í stað rjóma)

No comments: