Monday, July 7, 2014

Tæknilegir örðugleikar

Það er víst svo að tæknin hefur sína vankanta og getur klikkað þegar maður treystir á hana.
Ég uppgötvaði það í gær að þetta frábæra hlaup sem ég átti á fimmtudaginn var ekkert annað en glitch í RunKeeper appinu þar sem eitthvað óvænt hefur gerst í gervihnattasambandinu eða önnur eins álíka óheppni. Ég er því búin að henda þessu fína, fína hlaupi út úr appinu og reikna vegalengdina rétt á ja.is kortasjánni og sá þá að hún var ekki nema um 1,7 km á 15 mín... :( Svolítið svekk en þetta hljómaði líka fáránlega vel, of vel til að það gæti verið satt og því fór ég að skoða málið betur.

Ég er þó hvergi af baki dottin, enda eru alveg 6 vikur í hlaup og í gær hljóp í 3 kílómetrana sem ég átti að gera á laugardaginn og var hálftíma að því. Ég hafði reyndar gleymt að taka ofnæmislyfin mín um morguninn og var alveg að kafna á leiðinni en ég labbaði þá bara oftar inná milli. Ég er líka komin með örlitla beinhimnubólgu og þarf að muna að setja hitakrem á sköflungana áður en ég hleyp af stað. Ég fékk oft beinhimnubólgu þegar ég var í boltanum og var satt að segja alveg búin að gleyma því hvað það er ógeðslega sárt. Ég spilaði lengi með þar til gerðar hitalegghlífar til að finna minna fyrir einkennunum. Ég las mér svo til í gær á doktor.is að beinhimnubólga kemur auðveldlega þegar fólk byrjar að æfa aftur eftir einhverja pásu. Ég hef náttúrulega ekki hlaupið í 2 ár svo þetta er bara ekkert skrítið! ;)



Nú er nýjasti draumurinn minn að byrja að æfa Víkingaþrek í Mjölni. Úff hvað ég held það sé skemmtilegt! Mjölnir er líka á Seljaveginum sem er í göngufæri frá vinnunni minni. Gæti ekki verið betra. Eina sem er að tefja mig frá því er hvað mér finnst dýrt að æfa þar. Ég er að borga ca 8.000 kall á mánuði fyrir kort í Hreyfingu þar sem er frábært úrval tíma og glæsileg aðstaða en einn mánuður í Mjölni er á 12.500 kr eftir að hafa lokið 4ja vikna grunnnámskeiði sem kostar 17.900. Ekki skil ég hvað réttlætir þetta verð. Kannski er húsnæðið þeirra svona dýrt, þó ég efist um það þar sem sjúkraþjálfarinn minn er á hæðinni fyrir ofan og þetta hús er orðið ferlega lélegt. Mér datt líka í hug hvort það sé svona dýrt svo að fólk mæti frekar... einhver svona sálfræði á bak við þetta: "Ég borga svo mikið á mánuði að ég verð bara að mæta". Ef einhver getur útskýrt fyrir mér af hverju þetta er svona dýrt, þá endilega sendið mér skilaboð, takk.

Jæja, on with the show! Þetta hleypur sig ekki sjálft :)

Minni á áheitasíðuna mína til styrktar Einstökum börnum http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=20822

No comments: