Friday, July 4, 2014

Fyrstu dagarnir

Ég veit ekki hvort þið trúið því en hlaupaundirbúningurinn er búinn að ganga alveg hreint framar vonum í fyrstu vikunni!
Ég byrjaði á mánudag með þetta prógram sem ég setti hingað inn og fyrsta verk var að hlaupa í 15 mínútur. Ég náði að skokka/labba 1,6 kílómeter og meðalhraðinn var 6,41 km/klst. Eftir þetta var ég með blóðbragð í munninum og fékk astmakast (ég hef þjáðst af áreynsluastma síðan ég var unglingur) svo ég þurfti að nota pústið nokkrum sinnum eftir hlaupið meðan ég var að jafna mig.
Þriðjudaginn var hvíld og þá fann ég fyrir harðsperrum. Ég hafði náttúrulega ekki farið út að hlaupa síðan 2012 svo að líkaminn var bara eitt spurningamerki yfir því hvað væri nú að gerast!

Á miðvikudag sagði planið mér að hlaupa í 20 mínútur og nú hljóp ég 2,18 km á meðalhraðanum 6,51 km/klst. Þetta var nú ekki teljandi bæting á hraðanum en úthaldið var meira og ég þurfti bara eitt astmapúst þegar ég kom heim. Ekkert kast, bara svona óþægindi í berkjunum.

Í gær var svo aftur 15 mínútna hlaup og í þetta skiptið er bætingin mjög mikil. Ég hljóp núna 2,53 km á meðalhraðanum 10.08 km/klst. Ég átti helling inni, þurfti ekki að pústa mig eftir hlaupið og hefði getað hlaupið áfram ef hnéð hefði ekki sagt stopp, en ég makaði það bara með Voltaren geli og í dag föstudag, er hvíld. Á morgun er síðan 3 km hlaup og ég held ég geti það bara án nokkurra vandkvæða!

Ég trúi því ekki sjálf hvað líkaminn er fljótur að fagna þessari breytingu þar sem ég hef aldrei verið neinn hlaupari. Jú jú, ég æfði fótbolta og aðrar íþróttir sem krakki og unglingur en var aldrei hlaupari útaf astmanum. Ég man það enn eins og það hafi gerst í gær að ég tók þátt í einhverju Víðavangshlaupi í Mosfellsbæ fyrir hönd skólans þegar ég var eitthvað kringum 12 ára og þá komst ég bara annan hringinn af tveimur og fannst ég vera öllm til skammar. Ég var vön að hlaupa spretti og sprengdi mig strax í langhlaupinu og fékk astmakast. Ég var sett í þetta hlaup því ég hafði unnið einhver spretthlaup í skólanum en það er auðvitað allt, allt annað mál að spretta og hlaupa langhlaup. Ég fagna því þessari breytingu á mér og hlakka til að sjá hvað ég get í hlaupinu 23. ágúst!

Ég minni svo aftur á áheitasíðuna mína fyrir Reykjavíkurmaraþonið þar sem ég safna styrkjum fyrir Einstök börn.


No comments: