Tuesday, July 15, 2014

Hálfnað verk þá hafið er, í orðsins fyllstu

Ég skrapp á Laugarvatn um helgina til að styðja við bakið á Sævarði í sinni fyrstu hjólreiðakeppni þar sem hann stóð sig alveg frábærlega vel.
Ég tók hana Ólöfu Hugrúnu með og saman mönuðum við okkur upp í að skokka 5 kílómetra eins og hlaupaplanið segir til um. Í rigningu, roki og sudda gátum við þetta alveg og vorum bara ljómandi ferskar að hlaupi loknu. Ólöf er svolítið hraðskreiðari en ég en það hjálpaði mér bara að rífa mig í gang og reyna hlaupa hana uppi.

Ég álít það stóran sigur að vera búin að hlaupa helming vegalengdarinnar sem ég fer 23. ágúst eftir einungis 13 daga af æfingum. Æfingarprógramið sjálft er 7 vikur svo ég get ekki annað sagt en að þetta sé hinn fínasti árangur. Nú er bara að halda áfram og bæta jafnt í hraða og tíma og þá skotgengur þetta allt :D

Skemmtilegt að segja frá því líka að á 2 vikum er ég búin að safna helmingi þeirrar upphæðar sem mig langaði að reyna að safna fyrir samtökin Einstök börn. 25 þúsund krónur komnar og ég er mjög bjartsýn á að ná takmarkinu sem var 50 þúsund krónur http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=20822
Risastórt takk til ykkar sem hafið aðstoðað mig við að ná takmarkinu, ég met stuðninginn mikils.

Ég á tíma hjá sjúkraþjálfaranum á föstudaginn eftir viku þar sem ég er búin að komast að því að vinstra hnéð er bara ekki að virka sem skyldi. Það má rekja til Osgood Schlatter aðgerðarinnar sem ég fór í fyrir einhverjum árum og gerði illt verra ef eitthvað er. Það er eins og öll fjöðrun í hnénu sé bara óvirk og ég ætla að sjá hvort hann Halldór geti ekki hjálpað mér eitthvað. Þegar ég pikka upp hraðann finnst mér nefnilega eins og hægri dúi svona eins og hann á að gera en vinstri sé bara staurfótur. Þetta er náttúrulega slæmt fyrir hnéð og bakið og örugglega ýmislegt annað. Þannig aaaaaaað, sjúkró it is!


No comments: