Wednesday, September 2, 2015

Dubsmash rugl

Ég á ekki til orð.... Hahaha. Hún Þórey vinkona kynnti mig fyrir forritinu Dubsmash í júlí sem er rosalega hættulegt fyrir fólk sem er mikið eitt heima með ungabarni! Þetta virkar þannig að þarna inni er hafsjór af hljóðklippum úr öllum áttum eins og t.d. bíómyndum og sjónvarpsþáttum, svo tekur appið upp myndband af manni "mæma" textann... Hljómar auðvelt en þetta getur verið mjög erfitt stundum að láta þetta líta út eins og maður sé að segja þetta sjálfur... Ég bjó til nokkur myndbönd og ákvað svo sl mánudag að steypa þeim saman í eitt og deildi með vinum mínum á Facebook. Nú hafa tæplega 1300 manns horft á myndbandið og ég búin að lofa nýju næsta mánudag, þar sem ég á fleiri í pokahorninu.

Skemmtilegt ef einhverjir geta hlegið að vitleysunni í manni :)
Hér er linkur á myndbandið á YouTube http://youtu.be/6ZzeoeBOZH


Bara ef fleiri vilja sjá þetta rugl :)



Ein fjölskyldumynd svona miðvikudags :)

Wednesday, August 26, 2015

Eldað í orlofi

Það er ekki mikill tími sem maður hefur aflögu þegar maður er í fæðingarorlofi, dagarnir renna í eitt og samanstanda aðallega af bleyjum, gráti, hlátri, matargjöfum og svefni barnsins, sem þá nýtist í margar þvottavélahleðslur, tiltekt og mögulega munað af einhverju tagi eins og t.d. að greiða sér eða setjast niður til að borða.

Það eru ófáar uppskriftirnar sem ég hef sankað að mér gegnum tíðina og sá ég það í hyllingum að vera ótrúlega dugleg í orlofinu að prófa nýjar uppskriftir. Það hefur eitthvað lítið farið fyrir því hingað til en í gær tók ég mig til og eldaði dýrindis ítalskan pastarétt. Mikið ótrúlega var hann góður. Ég setti myndir af undirbúningnum á snapchat og það voru margir sem sendu mér fyrirspurnir um hvað ég væri að elda og hvort ég gæti deilt uppskriftinni. Það er að sjálfsögðu lítið vandamál og ég ákvað bara að henda henni hingað inn í leiðinni, á íslensku, þar sem upphaflega er hún amerísk, og ég breytti henni líka örlítið.

Það er aldrei að vita nema ég hendi hingað inn fleiru sem ég bralla í tilraunaeldhúsi Þórönnu.

Við Sævarður fórum til London í desember sl, röltum um eins og óléttu konunni hentaði og settumst nokkuð oft niður til að borða og hvíla lúin bein. Eitt skiptið rötuðum við inn á ítalska staðinn Bella Italia og þar fékk ég mér besta pastarétt sem ég man eftir að hafa smakkað. Ég hef oft leitt hugann aftur til þessa réttar og spáð í því hvort hann hafi virkilega verið svona góður eða hvort ég hafi mögulega bara verið það svöng að allt hefði smakkast svona vel.
Það var því tilvalið að finna uppskrift sem leit út fyrir að vera nokkuð svipuð því sem mig minnti og svei mér þá, þessi uppskrift sem ég notaði í gær var bara ansi nærri lagi.

Uppskriftina fann ég upphaflega á vef alþjóðlegu beinþynningarsamtakanna (NOF) og eitthvað segir mér að það sé vegna þess hve mikill ostur er í uppskriftinni sem er jú kalkríkur og nauðsynlegur fyrir heilsu beina. Upphaflega kemur uppskriftin þó frá kokkinum Nick Stellino.



Canneloni með spínat- og ricottafyllingu
Fyrir 6 manns
Undirbúningstími: 45 mínútur
Eldunartími: 30 mínútur

Innihald:
3 msk ólífuolía
1 bolli saxaður laukur
1/3 bolli sólþurrkaðir tómatar í bitum, olían sigtuð frá
6 hvítlauksgeirar, maukaðir
1/4 tsk piparblanda
500 grömm ferskt spínat, skolað og látið þorna
3 msk smjör
2 msk hveiti
2 bollar léttmjólk
1 lárviðarlauf
1/4 tsk mulinn pipar
1/4 tsk salt
1/4 tsk múskat
500 gr ricotta ostur (fæst í Fjarðarkaupum)
1 egg, pískað létt með gaffli
1 1/2 bolli og 2 msk nýrifinn parmesan ostur
1/2 bolli nýrifinn romano ostur
1 tsk salt
1/2 tsk mulinn pipar
1 msk söxuð fersk steinselja
2 bollar niðursoðnir tómatar (maukaðir, t.d. með töfrasprota)
1 pakki af cannelloni pasta frá Barilla (eða ferskt pasta í sneiðum)

Aðferð:
Spínatfylling: Hitið ólífuolíu í stórri pönnu á meðalhita. Bætið við lauk, sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og piparblöndu og steikið þar til laukurinn mýkist (u.þ.b. 6 mínútur). Bætið spínatinu við, lúku fyrir lúku, og steikið þar til vökvinn úr spínatinnu er horfinn (u.þ.b. 6-8 mínútur). Látið kólna.

Parmesan béchamel sósa: Bræðið smjörið við miðlungshita í meðalstórum potti. Bætið hveitinu útí og hrærið á meðan með trésleif þar til vel blandað saman. Hafið á hitanum í 2-3 mínútur og hrærið í á meðan, þá ætti þetta að verða svona nokkurnveginn eins og þunnt lím sem kallast á ensku roux og er engan veginn jafnþykkt og hin íslenska smjörbolla sem margir þekkja við gerð uppstúfs. Takið blönduna af hitanum.
Takið annan meðalstóran pott og hitið mjólk, lárviðarlauf, salt, pipar og múskat þar til mjólkin fer að sjóða. Takið þá lárviðarlaufið úr. Setjið smjörblönduna aftur á hitann, hellið sjóðandi mjólkurblöndunni varlega saman við og þeytið með písk á meðan til að minnka líkurnar á kekkjum. Haldið áfram að hræra í 3-6 mínútur á meðlhita eða þar til blandan hefur þykknað. Takið þá pottinn af hitanum og hrærið 1 bolla af parmesan osti útí þar til hann bráðnar. Kryddið með salti og/eða pipar ef ykkur finnst þurfa.

Haldið áfram með spínatfyllingu: Takið stóra skál og blandið í hana ricotta ostinum, egginu og 3/4 bolla af béchamel sósunni. Bætið svo spínatmixinu útí sem er nú orðið kalt, 1/2 bolla parmesan osti, 1/2 bolla romano osti, salti og pipar. Hrærið vel og setjið til hliðar.

Lokaskrefin: Hitið bakarofninn á 190 gráður.
Smyrjið stórt lasagne form og hellið tómatósunni í botninn. Fyllið cannelloni hólkana af fyllingu með teskeið eða setjið vel af fyllingu á pastasneiðina og rúllið upp í vindling. Setjið hólkinn í tómatsósuna og endurtakið þar til þið hafið fyllt formið (Ég notaði 28 hólka, 14/14). Hellið restinni af béchamel sósunni yfir tilbúnu hólkana og stráið svo 2 msk af parmesan og söxuðu steinseljunni yfir alltsaman.

Bakið í 25-30 mínútur þar til pastað er orðið heitt í gegn og sósan er orðin ljósbrún.
Látið kólna í 10 mínútur. Berið fram með fersku salati og hvítlauksbrauði.









Tuesday, September 2, 2014

10k hlaup - check

Nú er rúm vika liðin frá Reykjavíkurmaraþoninu og ég hef enn ekki komið mér í að skrifa neitt hér inn. Það er þó skemmst frá því að segja að ég hljóp 10 kílómetrana á 100 mínútum eins og planið var. Ég hefði þó verið á muuuun betri tíma ef ég hefði ekki misstigið mig illa og hrunið í götuna, setið þar í nokkrar mínútur að jafna mig og skakklappast svo síðustu 3.5 kílómetrana í mark. Stolt af mér að hafa klárað þetta, vissulega, en ég er nokkuð viss um að það var fólkið á hliðarlínunni og yndislega fólkið sem styrkti Einstök börn með áheitum á mig sem komu mér alla leið.

Mig langar að þakka öllum kærlega fyrir stuðninginn, teygjusokkurinn og eymslin sem há mér ennþá í dag voru alveg þess virði og gaman að sanna það fyrir sjálfum sér að þó maður hafi aldrei hlaupið utan fótboltavallarins þá er það hægt með smá æfingu og þrautseigju :)


Nú er ferðinni heitið aftur inn fyrir veggi Hreyfingar þar sem ég er með kort og ætla að fara að stunda hot yoga og crosstrainerinn af aðeins meiri krafti en undanfarið.

Annars verð ég að minnast á það hvað er orðið ótrúlega dimmt og kósý á kvöldin! Ég er bara búin að taka fram prjónana og splæsa í dýrindis kertasafn svo ég býð haustið bara velkomið með virtum :)
Með haustinu ætlum við að reyna að finna okkur nýtt heimili... það er búið að taka myndir af E6 og búa til lýsingu á eigninni svo þetta fer allt af stað þegar við finnum hinn fullkomna stað til að búa á... * spennóóóó *

Monday, August 18, 2014

8 km komnir í hús!

Í gær fór ég út að skokka í sólinni. Það var ofsalega fallegt veður og ég fattaði að ef það verður sól næsta laugardag, í Reykjavíkurmaraþoninu, þá verð ég að vera með einhverskonar hlaupasólgleraugu! Ég hljóp að heiman og út að Háskóla Íslands, út Sæmundargötu og þaðan upp á Suðurgötu. Hljóp svo niður að sjó og fór fallega stíginn að Nauthólsvík, meðfram Öskjuhlíð og svo Valsheimilinu og aftur heim. Þetta voru rétt rúmir 8 kílómetrar og ég var 80 mínútur að þessu. Var semsagt 20 mín með hverja 2 km sem ætti að reiknast þannig að ég verði 100 mínútur með 10 kílómetrana... spurning hvort ég reyni að setja mér 90 mínútna markmið og ögra mér aðeins... en við sjáum hvernig ég verð stemmd á laugardaginn :)

Ég hlakka allavega rosalega mikið til hlaupsins og skemmtilegast þykir mér að vera búin að safna smá upphæð til styrktar Einstökum börnum. Það væri algjör draumur í dós ef ég gæti safnað upp í markmiðið mitt sem var 50.000 krónur en ég er rétt rúmlega hálfnuð http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=20822

Ég er að leggja lokahönd á playlistann fyrir hlaupið, komin með compressionsokka og það er bara allt að smella! Meira að segja skrokkurinn er bara ágætur, believe it or not.


Tuesday, July 15, 2014

Hálfnað verk þá hafið er, í orðsins fyllstu

Ég skrapp á Laugarvatn um helgina til að styðja við bakið á Sævarði í sinni fyrstu hjólreiðakeppni þar sem hann stóð sig alveg frábærlega vel.
Ég tók hana Ólöfu Hugrúnu með og saman mönuðum við okkur upp í að skokka 5 kílómetra eins og hlaupaplanið segir til um. Í rigningu, roki og sudda gátum við þetta alveg og vorum bara ljómandi ferskar að hlaupi loknu. Ólöf er svolítið hraðskreiðari en ég en það hjálpaði mér bara að rífa mig í gang og reyna hlaupa hana uppi.

Ég álít það stóran sigur að vera búin að hlaupa helming vegalengdarinnar sem ég fer 23. ágúst eftir einungis 13 daga af æfingum. Æfingarprógramið sjálft er 7 vikur svo ég get ekki annað sagt en að þetta sé hinn fínasti árangur. Nú er bara að halda áfram og bæta jafnt í hraða og tíma og þá skotgengur þetta allt :D

Skemmtilegt að segja frá því líka að á 2 vikum er ég búin að safna helmingi þeirrar upphæðar sem mig langaði að reyna að safna fyrir samtökin Einstök börn. 25 þúsund krónur komnar og ég er mjög bjartsýn á að ná takmarkinu sem var 50 þúsund krónur http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=20822
Risastórt takk til ykkar sem hafið aðstoðað mig við að ná takmarkinu, ég met stuðninginn mikils.

Ég á tíma hjá sjúkraþjálfaranum á föstudaginn eftir viku þar sem ég er búin að komast að því að vinstra hnéð er bara ekki að virka sem skyldi. Það má rekja til Osgood Schlatter aðgerðarinnar sem ég fór í fyrir einhverjum árum og gerði illt verra ef eitthvað er. Það er eins og öll fjöðrun í hnénu sé bara óvirk og ég ætla að sjá hvort hann Halldór geti ekki hjálpað mér eitthvað. Þegar ég pikka upp hraðann finnst mér nefnilega eins og hægri dúi svona eins og hann á að gera en vinstri sé bara staurfótur. Þetta er náttúrulega slæmt fyrir hnéð og bakið og örugglega ýmislegt annað. Þannig aaaaaaað, sjúkró it is!


Monday, July 7, 2014

Tæknilegir örðugleikar

Það er víst svo að tæknin hefur sína vankanta og getur klikkað þegar maður treystir á hana.
Ég uppgötvaði það í gær að þetta frábæra hlaup sem ég átti á fimmtudaginn var ekkert annað en glitch í RunKeeper appinu þar sem eitthvað óvænt hefur gerst í gervihnattasambandinu eða önnur eins álíka óheppni. Ég er því búin að henda þessu fína, fína hlaupi út úr appinu og reikna vegalengdina rétt á ja.is kortasjánni og sá þá að hún var ekki nema um 1,7 km á 15 mín... :( Svolítið svekk en þetta hljómaði líka fáránlega vel, of vel til að það gæti verið satt og því fór ég að skoða málið betur.

Ég er þó hvergi af baki dottin, enda eru alveg 6 vikur í hlaup og í gær hljóp í 3 kílómetrana sem ég átti að gera á laugardaginn og var hálftíma að því. Ég hafði reyndar gleymt að taka ofnæmislyfin mín um morguninn og var alveg að kafna á leiðinni en ég labbaði þá bara oftar inná milli. Ég er líka komin með örlitla beinhimnubólgu og þarf að muna að setja hitakrem á sköflungana áður en ég hleyp af stað. Ég fékk oft beinhimnubólgu þegar ég var í boltanum og var satt að segja alveg búin að gleyma því hvað það er ógeðslega sárt. Ég spilaði lengi með þar til gerðar hitalegghlífar til að finna minna fyrir einkennunum. Ég las mér svo til í gær á doktor.is að beinhimnubólga kemur auðveldlega þegar fólk byrjar að æfa aftur eftir einhverja pásu. Ég hef náttúrulega ekki hlaupið í 2 ár svo þetta er bara ekkert skrítið! ;)



Nú er nýjasti draumurinn minn að byrja að æfa Víkingaþrek í Mjölni. Úff hvað ég held það sé skemmtilegt! Mjölnir er líka á Seljaveginum sem er í göngufæri frá vinnunni minni. Gæti ekki verið betra. Eina sem er að tefja mig frá því er hvað mér finnst dýrt að æfa þar. Ég er að borga ca 8.000 kall á mánuði fyrir kort í Hreyfingu þar sem er frábært úrval tíma og glæsileg aðstaða en einn mánuður í Mjölni er á 12.500 kr eftir að hafa lokið 4ja vikna grunnnámskeiði sem kostar 17.900. Ekki skil ég hvað réttlætir þetta verð. Kannski er húsnæðið þeirra svona dýrt, þó ég efist um það þar sem sjúkraþjálfarinn minn er á hæðinni fyrir ofan og þetta hús er orðið ferlega lélegt. Mér datt líka í hug hvort það sé svona dýrt svo að fólk mæti frekar... einhver svona sálfræði á bak við þetta: "Ég borga svo mikið á mánuði að ég verð bara að mæta". Ef einhver getur útskýrt fyrir mér af hverju þetta er svona dýrt, þá endilega sendið mér skilaboð, takk.

Jæja, on with the show! Þetta hleypur sig ekki sjálft :)

Minni á áheitasíðuna mína til styrktar Einstökum börnum http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=20822

Friday, July 4, 2014

Fyrstu dagarnir

Ég veit ekki hvort þið trúið því en hlaupaundirbúningurinn er búinn að ganga alveg hreint framar vonum í fyrstu vikunni!
Ég byrjaði á mánudag með þetta prógram sem ég setti hingað inn og fyrsta verk var að hlaupa í 15 mínútur. Ég náði að skokka/labba 1,6 kílómeter og meðalhraðinn var 6,41 km/klst. Eftir þetta var ég með blóðbragð í munninum og fékk astmakast (ég hef þjáðst af áreynsluastma síðan ég var unglingur) svo ég þurfti að nota pústið nokkrum sinnum eftir hlaupið meðan ég var að jafna mig.
Þriðjudaginn var hvíld og þá fann ég fyrir harðsperrum. Ég hafði náttúrulega ekki farið út að hlaupa síðan 2012 svo að líkaminn var bara eitt spurningamerki yfir því hvað væri nú að gerast!

Á miðvikudag sagði planið mér að hlaupa í 20 mínútur og nú hljóp ég 2,18 km á meðalhraðanum 6,51 km/klst. Þetta var nú ekki teljandi bæting á hraðanum en úthaldið var meira og ég þurfti bara eitt astmapúst þegar ég kom heim. Ekkert kast, bara svona óþægindi í berkjunum.

Í gær var svo aftur 15 mínútna hlaup og í þetta skiptið er bætingin mjög mikil. Ég hljóp núna 2,53 km á meðalhraðanum 10.08 km/klst. Ég átti helling inni, þurfti ekki að pústa mig eftir hlaupið og hefði getað hlaupið áfram ef hnéð hefði ekki sagt stopp, en ég makaði það bara með Voltaren geli og í dag föstudag, er hvíld. Á morgun er síðan 3 km hlaup og ég held ég geti það bara án nokkurra vandkvæða!

Ég trúi því ekki sjálf hvað líkaminn er fljótur að fagna þessari breytingu þar sem ég hef aldrei verið neinn hlaupari. Jú jú, ég æfði fótbolta og aðrar íþróttir sem krakki og unglingur en var aldrei hlaupari útaf astmanum. Ég man það enn eins og það hafi gerst í gær að ég tók þátt í einhverju Víðavangshlaupi í Mosfellsbæ fyrir hönd skólans þegar ég var eitthvað kringum 12 ára og þá komst ég bara annan hringinn af tveimur og fannst ég vera öllm til skammar. Ég var vön að hlaupa spretti og sprengdi mig strax í langhlaupinu og fékk astmakast. Ég var sett í þetta hlaup því ég hafði unnið einhver spretthlaup í skólanum en það er auðvitað allt, allt annað mál að spretta og hlaupa langhlaup. Ég fagna því þessari breytingu á mér og hlakka til að sjá hvað ég get í hlaupinu 23. ágúst!

Ég minni svo aftur á áheitasíðuna mína fyrir Reykjavíkurmaraþonið þar sem ég safna styrkjum fyrir Einstök börn.