Ég hóf daginn á því að taka Lýsi og vítamín og svo brunaði ég í sjúkraþjálfun til hans Halldórs. Þar fékk ég smá "klapp" á bakið og ég spurði hann út í verki sem ég er að fá næstum daglega frá olnboga og niður í úlnliði. Hann skoðaði málið og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri tennisolnbogi... báðum megin! Hann kreisti þetta eitthvað til og stakk svo nál í triggerpunkt í hægri olnboganum. Hann gerði eitthvað sem kallast dry needling þar sem hann var að færa nálina aðeins til og reyna að pikka í vöðvaþræðina og fá þá til að slaka. Mér fannst þetta ekki sérlega þægilegt enda ekki prófað þetta áður og vissi ekkert við hverju var að búast. Að þessu loknu dreif ég mig í vinnuna og var svo eftir mig eftir þetta nálapot að ég var næstum handlama þar til um hádegi. Ég er aðeins skárri núna og bíð spennt eftir að sjá hvernig mér líður á morgun.
Ég endurstillti stólinn í vinnunni (aftur), Halldóri fannst líklegast að þessi verkur stafaði af því að ég væri með óþarfa spennu í handleggjunum þegar ég sæti við skrifborðið að pikka á tölvuna. Handleggirnir eiga að vera í 90° og hef ég lagað þetta núna.
Ég er semsagt bæði orðin rosalega bein í baki og með hornrétta olnboga í vinnunni... Ætli ég fari ekki bráðlega að svífa um á skýi sökum verkjaleysis? Sjáum hvað setur.
Ég var ansi lystarlaus í morgun eftir þessi erfiði hjá Halldóri. Það spratt enn af mér svitinn þegar ég var mætt til vinnu og ég píndi ofan í mig eina appelsínu... Í hádeginu borðaði ég svo hálfa kjúklingabringu, smá grjón og VATN, svo fékk ég mér plómu líka og eitt djúsglas. Mér var boðin kökusneið og súkkulaðibiti og afþakkaði ég með þökkum.
Í kvöldmat fengum við okkur mjög létta en seðjandi máltíð. Heilveiti tortilla með hrærðum eggjahvítum, tómötum, sveppum og örlitlum rifnum osti.
2 comments:
Almáttugur hvað þessi heilhveiti tortilla er girnileg! Þetta verður prófað í kvöldmat :)
Hvernig smakkaðist svo? :)
Post a Comment